1190 - Forsendubrestur

Er allt að fara til fjandans? Einhvern vegin finnst mér sumir haga sér eins og þeim finnist best sé að svo fari, úr því viðkomandi geta ekki fengið allar sínar óskir uppfylltar. Ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni hans Harðar um áramótin 2008 og 2009 en nenni ekki á vettvang núna. Er samt ekki hræddur um að verða fyrir meiðingum en sýnist að of margir séu að sinna of mörgum málum að þessu sinni. Finnst að menn séu meira og minna bara að sýnast fyrir fjölmiðla og myndatökumenn en þegar á skal herða koðnar allt niður. 

Ármann Jakobsson, sem helst ekki má segja að sé bróðir Kötu menntamála, kallar Heiðu B. Heiðars og fleiri tunnuterrorista. Er ekki frá því að ég sé svolítið sammála Ármanni. Nasistafánarnir ollu mér hryllingi. Veit ekki af hverju. Sennilega eru þeir sem á þeim halda bara ágætisfólk. Fjölmiðlar hafa þó dregið upp svarta mynd af þeim.

Fjölyrt um forsendubrest. Forsendubrestur er ekki forsendubrestur nema brestur sé. Dómstólar virðast ekki viðurkenna svoleiðis skrautblóm. Ekki er samt fullreynt með Hæstarétt. Eru dómstólarnir ekki best færir um að ákveða hvað er forsendubrestur og hvað ekki?

Biðraðirnar hjá mæðrastyrksnefnd, fjölskylduhjálp og fleirum eru bara fyrirkomulagsatriði. Sú hefð sem komist hefur á varðandi matarúthlutanir lítillækkar fólk mjög. En einhverjum hlýtur að vera í hag að hafa þetta svona. Tiltölulega einfalt væri að hafa fyrirkomulagið öðruvísi, en þá hyrfu biðraðirnar og ekkert væri til að mynda. Kannski mundi það líka kosta eitthvað. Gefendur matarins vilja ráða hvað gefið er. Með því að halda ríkinu frá þessu (sem ætti þó skilyrðislaust að bera ábyrgðina) stjórna gefendur málinu alfarið.

Hvað er það sem skilar okkur fram á við? Er það viska hinna eldri eða kraftur og áræði ungdómsins? Ég er nefnilega ekki í neinum vafa um að við erum á framfaraleið. Úrtölumenn sem misst hafa kjarkinn segja að allt sé á hraðri niðurleið. Ég reyni að standa með ungdómnum. Hans er framtíðin. Skelfingar klisjur eru þetta. Hættur og farinn að sofa.

IMG 3578Kál á öðru ári.


Bloggfærslur 4. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband