1216 - Leirgerður og Grútarbiblía

Nú ætla ég að reyna að hætta að hugsa eins mikið um pólitík og ég hef gert að undanförnu. Hún deprimerar mann bara. Hlutirnir fara sjaldan þar eins og maður vonast til og spáir. Ekki þýðir samt að láta hugfallast.

Það voru um 63 prósent sem kusu í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðinn vetur og svipað hlutfall kjósenda sem sat heima í kosningunum um síðustu helgi. Er þetta tilviljun? Hvað segja talnaspekingar nú? Ekki var þetta sama fólkið. Samt eru þessar stærðir svo líkar að athygli vekur. Ég er bara ekki nógu vel gefinn til að skilja þetta.

Hvaðan skyldi hún koma þessi bloggnáttúra sem í mér virðist vera? Oft er ég að því kominn að gefast upp á þessum fjára. Er þetta það eina sem ég get gert betur en margir aðrir? Kannski. Þetta er allavega það sem ég nenni að gera um þessar mundir. Óskar Þorkelsson er alltaf að hrósa mér. Það heldur mér talsvert við efnið. Kannski meinar hann þetta. Hinsvegar vilja fáir rífast við mig hvernig sem á því stendur. Þó vil ég gjarnan rífast við fólk, en bara á mínum forsendum. Þessvegna blogga ég. Margir bloggarar eru svona.

Moggabloggsteljarinn segir mér að heimsóknir á bloggið mitt séu flesta daga á annað hundrað eða svo. Af því þykist ég sjá að þeir sem lesa bloggið mitt reglulega séu a.m.k. svo margir (sumir þeirra komi ekki í heimsókn daglega en séu reglulegir gestir engu að síður) .

Síðan ímynda ég mér að ég hafi með skrifum mínum einhver (eða talsverð) áhrif á skoðanir þessa hóps. Þessvegna vanda ég mig oft töluvert við þessi skrif. En sum blogg eru ákaflega óvönduð.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég klausu um Marínómálið. Ég er enn sama sinnis með það. Mér finnst hann hafa heimskað sig á því að fara í megafýlu við það eitt að blaðamaður sagðist ætla að upplýsa hve mikið hann skuldaði. Veit ekki ennþá hve mikið það er og hef ekki áhuga á að vita það.

Leirgerður minnir mig að sé sálmabók og um hana held og að hafi m.a. verið ort: „Skáldskapur þinn er skothent klúður, skakksettum höfuðstöfum með." Gott ef eftirfarandi eða eitthvað á þá leið var ekki líka sagt um bókina: „Allt rekur sig á annars horn, eins og nautpening hendir vorn." Leirgerður hugsa ég samt að bókin hafi verið kölluð af því að hún hafi verið prentuð í Leirárgörðum. Eflaust hefur samt einhverjum fundist ljóðin óttalegur leirburður. Ekki eru ritdómar nú til dags í bundnu máli.

Grútarbiblía er útgáfa af biblíunni þar sem einhvers staðar stendur (líklega í fyrirsögn) harmagrútur í staðinn fyrir harmagrátur. Ekki má nú mikið.

Fyrir löngu var ég áskrifandi að Vikunni. Minnir að þar hafi einhverntíma verið grein um eyðslu frægs fólks gerð eftir upplýsingum þess sjálfs. Á þeim tíma var Ómar Ragnarsson flugmaður og skemmtikraftur með meiru ekki síður þekktur en nú. Man sérstaklega eftir því að að í innkaupum Ómars kom fram að hann keypti ákaflega mikið af kexi. Svo mikið að mér, sem alltaf hef kexglaður verið (jafnvel kexruglaður), ofbauð gjörsamlega. Veit ekki hvernig Ómar er kexlega séð núna en þá var hann allavega mjög kexsinnaður.

Las einhverntíma frásögn um mann sem tekinn var til fanga í smábæ í Bandaríkjunum fyrir minniháttar afbrot og stungið í steininn sem var í kjallara lögreglustöðvarinnar. Fangageymslan var lítið notuð og maðurinn gleymdist þar í hálfan mánuð. Var samt með lífsmarki þegar það uppgötvaðist. Hafði einhvern vegin komist í vætu.

IMG 3833Náttúran gerir allskyns tilraunir.


Bloggfærslur 30. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband