1214 - Kosningum lokið

Nú er hægt að fara að blogga um eitthvað annað en stjórnlagaþingið. Bíðum eftir úrslitunum. Kjörsóknin var dræm og þessvegna verður þingið ekki eins áhrifamikið og ella. Að því leyti sem líta má á kosningarnar sem einhvern stuðning við ríkisstjórnina má hún vel við una. Auðvitað er samt ekki rétt að gera það nema að litlu leyti. 

Það er að koma fram sem ég fór að óttast fljótlega eftir hrun. Fólk er sem óðast að koma sér fyrir í sínum gömlu pólitísku skotgröfum. Orð eins og til dæmis „forsendubrestur" og „greiðsluvilji" heyrðust varla fyrir hrun, en eru nú mjög í tísku. Gallinn er sá að hver og einn leggur þann skilning í þessi orð sem hentar honum og hans pólitísku sannfæringu best. Óhugnanlegt er að sjá á úrslitum skoðanakannana að fylgi fjórflokksins og hlutföllin þar hafa lítið breyst frá því fyrir hrun.

Alls ekki er samt útilokað að skoðanir fólks hafi breyst töluvert. Að mörgu leyti er trúlegt að sú breyting komi í ljós á boðuðu stjórnlagaþingi. Takist því þingi að verða sammála um verulegar breytingar á stjórnarskránni er ekki ólíklegt að Alþingi samþykki hana líka. Það kann að boða nýja tíma í íslensku stjórnmálalífi.

Þó mér sé að mörgu leyti illa við fésbókina get ég ekki stillt mig um að fara þangað öðru hvoru (oft á dag). Stundum tek ég dýfur og sendi vinabeiðnir á alla sem forritið stingur upp á og ég kannast eitthvað við. Svo fæ ég stundum vinaboð sem ég samþykki yfirleitt umhugsunarlaust. Þetta hefur í för með sér að fésbókarvinir mínir eru nú orðnir eitthvað á fjórða hundrað og það sem sagt er skrunar svo hratt framhjá að ég missi yfirleitt af því. Stundum hefði ég alveg verið til í að bæta athugasemd við en er yfirleitt svo lengi að hugsa að tækifærið fer framhjá mér. Svo hentar bloggið mér bara betur.

Salvör Kristjana (systir hans Hannesar) er alltaf að gera allskyns tilraunir. Nú mælir hún með að fólk noti posterous.com fyrir blogg og þessháttar. Er ekki of mikil bakhlutalykt af þessu bloggsetursnafni? Mér finnst Moggabloggið best. (Alltaf er hann bestur blái borðinn).

Marínó G. Njálsson fór alveg í baklás um daginn þegar DV ætlaði að birta upplýsingar um lánamál hans. Hvernig ætli staðan á því máli sé núna? Ég missti alveg af því að fá að vita hve mikið hann skuldar. Traust mitt á honum hefur samt minnkað töluvert við þessar ritstýringartilraunir hans.

Svo er það spurning spurninganna sem ég sá á einhverju bloggi um daginn: Hver á Moggann? Á Davíð Moggann eða á Mogginn Davíð? Er BjarniBen svona æstur alltaf af því hann er að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Davíð? Ég bara spyr. Ég veit næstum ekki neitt. Og svo er allt að verða vitlaust útaf Gunnari í Krossinum. Þeir eru varasamir þessir guðsmenn.

IMG 3827Hér voru járnsmiðir, nei ég meina trésmiðir víst á ferð.


Bloggfærslur 28. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband