19.11.2010 | 00:09
1205 - Ýmislegt annað en stjórnlagaþingið
Hvers vegna eru flestir svona uppteknir af útliti sínu og því hvað aðrir hugsa og segja um þá? Jú, þeir vita innst inni hve andstyggilegir þeir sjálfir eru í garð annarra og reikna eðlilega með því að aðrir séu eins. Vel er hægt að álíta sem svo að með því að hugsa vel um útlit sitt sé verið að sýna öðrum virðingu. Í raun er samt auðvitað um tilraun til sjálfsupphafningar að ræða.
Þó útlitið sé mikilvægt er innrætið þó mikilvægara. Allir vilja sýnast góðir. Það ræður jafnvel stjórnmálaskoðunum fólks. Þá finnst fólki það vera meira gott en þeir sem öðrum stjórnmálaflokkum tilheyra.
Viska heimsins býr í bókum. Þess vegna fer ég mánaðarlega á tvö bókasöfn og fæ lánaðar bækur þar og hef gert í mörg ár. Internetið er ágætis viðbót og þeir sem góðir eru að gúgla geta verið fljótir að fletta upp ýmsum hlutum þar. Samt fer ég ekki ofan af þessu með viskuna. Hins vegar er lítil viska í vesalings þingmönnunum okkar. Þeir eru langt komnir með að kjafta frá sér allt vit núna heyrist mér. Þeir eru nefnilega útsettir með að glenna sig hér á heimilinu í kapp við Arnþrúði og Pétur á Útvarpi Sögu.
Eins og Jónatan Swift sagði forðum í gervi Gullivers: Ekkert er stórt og ekkert er smátt án samanburðar við annað," þá má eins segja að ekkert sé gott og ekkert vont án samaburðar við annað. Á þessu þrífast stjórnmálin.
Endalaust má bollaleggja um mannlega hegðun og skýra hana á ýmsa vegu. Auðvitað skýrir hver og einn hana á þann hátt sem honum kemur best. Þetta læra menn smátt og smátt. Sumir fljótt, sumir seint og fáeinir alls ekki. Þeir eru kallaðir einhverfir.
Endalaus speki er þetta alla tíð. Þegar fólk les þessi ósköp kinka sumir kolli en aðrir hrista hausinn. Það er eðlilegt. Enginn skrifar svo öllum líki. Já, auðvitað er þetta afbökun á frægum talshætti. Eru ekki öll skrif og ræðuhöld samsetning á talsháttum og frösum hverskonar? Er hægt fyrir dauðlega menn að vera frumlegir í hugsun?
Eigi má sköpum renna.
Að færa sig uppá skaftið.
Svo lengist lærið sem lífið. (O.K. Þessi er svolítið aflagaður.)
Það er uppi á þér typpið núna.
Að koma einhverju á koppinn.
Eitthvað er í burðarliðnum.
Andskotans dónaskapur er þetta alltsaman. En svona eru talshættir oft. Ekkert nema dónaskapurinn eða getur verið að mín hugsun sé eitthvað úr lagi færð. Varla. Þó ég sé aðeins byrjaður að eldast er ég ekki svo skyni skroppinn að ég sjái ekki svonalagað.
Frumlegasta hugsunin sem ég varð var við í gær var sú sem Stefán Pálsson sagði frá á sínu bloggi. Einhver sem hann þekkti og tiltók kom á fésbókarræflinum með þá tillögu að í stað kjördæmaskiptingar eftir landfræðilegum línum skyldi skipta landinu í kjördæmi eftir aldri kjósenda. Þetta er dálítið frumlegt en trúlega afar heimskulegt. Með því væri verið að viðurkenna að kjördæmaskiptingin sé einhver nauðsyn sem hún er alls ekki. Hvað ætti að taka við er svo endalaust hægt að deila um.
Er ég orðinn ofurbloggari? Sennilega ekki. En kannski er ég farinn að nálgast það. Það er næstum ofurmannlegt hjá mér að blogga svona uppá hvern dag. Ofurbloggari verð ég samt varla útá það. Hvernig eru ofurbloggarar skilgreindir nútildags? Þetta var minni spurning áður fyrr þegar bloggið var að byrja. Sennilega hefði ég átt að byrja fyrr. Þá hefði mér líklega ekki orðið skotaskuld úr því að verða ofurbloggari. Skotaskuld?? Hvað þýðir svoleiðis orðaleppur í raun. Eða þá ofurbloggari?? Nei, nú er ég hættur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)