1196 - Jón Gnarr

Allir eru að gera á sig útaf Jóni Gnarr. Mér fannst hann standa sig ágætlega í Kastljósviðtalinu í gær. Sagt er að skíðamenn séu æfir útaf hugsanlegri lokun skíðasvæðisins í Bláfjöllum. Ef hafa þarf einhvern fjölda fólks á launum vegna svæðisins hvort sem opið er marga daga eða fáa finnst mér alveg koma til greina að spara þar. Skíðamenn geta sjálfir tekið einhverja áhættu. Rekstur skíðasvæðisins er verulega áhættusamur eins og tíðarfarið hefur verið að undanförnu. 

Sama hvað illt er hægt að segja um Jón greyið þá er hann þó alla vega skárri en flestir aðrir. Reikna fastlega með að hann verði endurkjörinn ef hann gefur kost á sér áfram og verður ekki farinn í landsmálin þegar þar að kemur. Hann er miklu fremur mikilhæfur en vanhæfur eins og hann benti sjálfur á.

Ég er kominn með 280 fésbókarvini og er bæði að safna þeim og þó ekki. Eins og í flestu öðru er ég þarna beggja blands og á erfitt með að ákveða hvar ég stend. Til hvers eru allir þessir fésbókarvinir? Hef ekki hugmynd um það.

Saga Sjónvarpsins er saga popphljómsveita. Þetta er nokkuð sem Árni Bergmann bendir á í sinni fésbók og ég er alveg sammála því. Tvennt veldur þessu einkum. Mikið af svona efni er geymt og tiltækt og þar að auki auðvelt fyrir umsjónarmenn þátta að lengja þá fyrirhafnarlítið með því að spila heilu lögin. En ósköp er þetta þreytandi og leiðinlegt.

Bloggáherslur mínar eru einkum tvennskonar. Annarsvegar að blogga á hverjum einasta degi og hinsvegar reyni ég að blogga ekki alltof mikið í senn. Ef mér tekst óvenju vel upp einn daginn þá læt ég það helst ekki allt frá mér allt í einu. Geymi sumt. Með þessu móti verða bloggin mín stundum, ef fréttatengd eru, svolítið úrelt og seint fram komin. Ég finn ekki svo mikið fyrir þessu sjálfur en lesendur finna þetta og undan því hefur verið kvartað við mig.

Eftir því sem nær dregur stjórnlagaþingskosningunum magnast ótti minn um að þær fari ekki vel. Kosningaþátttakan verði annað hvort allt of lítil eða framkvæmdin fari að einhverju leyti í handaskolum. Það er óþarfi að fara strax að kvíða þinginu sjálfu og væntanlegu ósamkomulagi þar, en ég er viss um að sá kvíði tekur fljótlega við ef kosningin gengur bærilega.

IMG 3677Bygging á Reykjavíkurflugvelli.


Bloggfærslur 10. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband