1185 - Moggaskrifli og matargjafir

Svanur Gísli Þorkelsson biður um útskýringu á orðinu Tintron. Hana á ég ekki til. Þetta orð virðist mjög vandskýrt og eftir því sem ég veit best veit á það sér enga hliðstæðu í öðrum landshlutum. Björgunarsveit með sama nafni starfar eða starfaði á svæðinu en mig grunar að menn þar viti lítið um uppruna nafnsins og sveitin sé einfaldlega nefnd eftir hellinum. Örnefnanafngiftir eru þó alltaf athyglisverðar og á Vísindavefnum hefur verið um mál þetta fjallað.

Margir hafa horn í síðu Moggaritstjórans fræga og svo virðist sem enn og aftur ætli honum að takast að vefja sjálfstæðismönnum um fingur sér. Að sjálfstæðismenn skuli hlaupa fram og aftur vegna allra pólitískra frétta sem Davíð þóknast að birta í Moggaskriflinu er í besta falli skemmtilegt en getur á endanum orðið sjálfstæðismönnnum mjög til trafala. Auðvitað er alltaf einhver fótur fyrir þeim fréttum sem þar birtast en áherslurnar og það hvað birt er virðist alltaf þjóna Davíð ágætlega og hans skoðunum.

Matargjafir þær sem hér tíðkast hjá Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp og Þjóðkirkjunni eru til háborinnar skammar öllum þeim sem ættu auðveldlega að geta gert betur. Það fólk sem hefur ríkisborgararétt hér á Íslandi á rétt á því að fá að borða og það á ekki að þurfa að betla sér mat með þessum hætti. Auðvitað er alltaf hætta á að einhverjir misnoti sér það sem ókeypis er. Það má samt ekki verða til þess að öðrum sé refsað í stórum stíl. Það svindl sem hugsanlega fer fram með þeim hætti að óverðugir fái matargjafir er svo lítið að það hefur enga þýðingu.

Hver skyldi skoðun fólks á fésbókinni vera? Eru þær umræður sem þar fara fram á einhvern hátt markverðar? Í fljótu bragði sýnist mér að þær komi einkum að haldi þannig, að komi fram góðar hugmyndir eða vel orðaðar þar, þá dreifast þær fljótt og víða ef einhverjir koma þeim á framfæri og endurvarpa þeim. Það sama má auðvitað um bloggið segja en þar fer lesendum og þátttakendum líklega talsvert fækkandi.

Margt er skrýtið í sambandi við Evrópusambandsandstöðuna. Þar gengur ekki hnífurinn á milli harðra hægrisinnaðra AMX-ara og vinstri grænna stofukomma. Þar sameinast í andanum Davíð stríðsmaður og Steingrímur Jóhann. Samt tókst heilagri Jóhönnu að lauma aðildarumsókn að EBS í gegn og þrátt fyrir góðan vilja margra til að ónýta þann gjörning virðist það ætla að mistakast.

IMG 3549Njólaskógur í Fossvoginum.


Bloggfærslur 30. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband