1184 - Stjórnlagaþing II

Margt bendir til þess að stjórnlagaþing það sem væntanlega verður haldið í byrjun næsta árs verði einstæður atburður í stjórnmálasögu landsins. Þessvegna er einboðið að vanda umgjörð þess alla og kosningar til þess eins mikið og kostur er. Úrtöluraddir heyrast þó auðvitað og sumir segja að sjálfsagt sé að semja nýja stjórnarskrá en bara ekki núna.

Á margan hátt finnst mér samt að rétta tækifærið sé núna. Þegar núverandi stjórnarskrá tók gildi við lýðveldisstofnunina árið 1944 stóð til að endurskoða hana fljótlega. Það hefur ekki verið gert ennþá nema að litlu leyti. Engin þörf er að fresta þessu einu sinni enn.

Ekki er víst að nauðsynlegt sé að endurnýja stjórnarskrána að öllu leyti þó margir kaflar hennar þarfnist endurskoðunar. Eflaust er hægt að nota suma kafla skrárinnar áfram lítið eða ekkert breytta. Vafalaust verða margir kaflar hennar þó endurskoðaðir rækilega. Hægt er að byggja á því starfi sem unnið hefur verið hingað til þó ekki hafi tekist að ljúka neinu umtalsverðu varðandi endurskoðunina til þessa.

Langhættast er við að svo hart verði deilt á þinginu að ekkert verði úr neinni endurskoðun. Gott ef sáttfýsi og samstarfsvilji verða ekki afdrifaríkustu og áhrifamestu eiginleikar væntanlegra þingfulltrúa. Mikilvægast er að á þingið veljist sá þverskurður samfélagsins sem Alþingi hefur jafnan átt að vera. Kannski eru það einkum stjórnmálaflokkarnir sem hafa eyðilagt þann möguleika. Kosningafyrirkomulag hefur líka jafnan verið með þeim hætti að lítt hefur verið hægt að taka mark á úrslitum kosninga.

Um daginn birti ég frásögn af ferð í Tintron. Lét þess getið að hann væri einskonar vasaútgáfa af hellinum fræga við Þríhjúka. Í kvöld var ýtarleg umfjöllun um Þríhjúkahellinn í kastljósi sjónvarpsins. Dettur óneitanlega í hug að hugmyndin að þeirri umfjöllun sé frá mér komin. Einkum vegna þess að ég hef orðið var við svipað áður í minni miklu sjálfhverfu. Hvarflar þó ekki að mér að þetta skipi máli. Sama hvaðan góðar hugmyndir koma.

Íslensk málnefnd hefur ályktað um ásókn ensku í íslensku háskólasamfélagi. Þar kemur fram að útbreiðsla enskunnar er þar mikil og sum námskeið eru eingöngu kennd á ensku og 80% doktorsritgerða eru á ensku. Þessi þróun er ískyggileg svo ekki sé meira sagt. Hugsanlega mun ég skrifa meira um þetta seinna

IMG 3544Nærmynd af mósaík.


Bloggfærslur 29. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband