1182 - Stjórnlagaþing og ESB

Er lítið farinn að velta fyrir mér hverja ég á að kjósa til stjórnlagaþings. Þó er kominn tími til þess. Ekki er nóg að finna 25 frambjóðendur sem manni líkar við heldur þarf að raða þeim líka. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Auðvitað er hægt að mæta á kjörstað og kjósa bara einn eða fáeina en ég er að hugsa um að nýta minn rétt til fullnustu.

Menn geta reynt að finna komandi stjórnlagaþingi allt til foráttu og gera það margir. Samt er það svo að þetta er á allan hátt einstæður viðburður. Alþingi hefur hingað til reynst ófært um að sinna því verkefni að semja nýja stjórnarskrá fyrir landið enda vandséð að alþingismönnum komi það meira við en öðrum.

Mér finnst að úr því að verið er að kjósa á svona þing eigi að gera það af fullum heilindum. Ekki láta annarleg sjónarmið trufla sig. Auðvitað er ekki útilokað að kjósa þá sem starfað hafa í stjórnmálaflokkum eða öðrum þrýstihópum en gjalda ber mikinn varhug við áhrifum flokkanna á þinginu. Ég mun einungis kjósa þá sem ég geri ráð fyrir að hlusti lítið á flokksmaskínur.

Kosning þessi kann að hafa áhrif í þá átt að deilur magnist milli manna en líka mun umræða um grundvallaratriði áreiðanlega aukast að mun. Hætt er við að umræður um ákveðin efni svo sem trúmál muni yfirskyggja önnur en hjá því verður ekki komist.

Undarlegt að enn skuli menn halda því fram að eðlilegt sé að hætta aðildarviðræðum við ESB. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig að ekki henti Íslendingum að gerast aðilar að bandalaginu. En að ekki megi ræða við fulltrúa þess er of langt gengið.

Hugsanlegt er að viðræðurnar fari fram á einhvern þann hátt sem dregur fremur taum ESB en Íslendinga. Þann taumdrátt þarf þá að ræða en ekki fara bara í fýlu og hrista hausinn. Að aðildarandstæðingar skuli í stórum stíl halda fram svo illa grunduðum skoðunum er að eyðileggja málstað þeirra en svo virtist sem hann nyti meirihlutafylgis kjósenda.

Eftir því sem fram kom í sjónvarpsfréttum í kvöld er auðvelt að fylgjast með þeim sem eru að fésbókast á „public" netum. Ekki er ég hissa á því og lít í rauninni svo á að Internetið sem slíkt sé alls ekki öruggt. Ef menn þurfa endilega að vera með eitthvert leynilegt stúss þar mega þeir alltaf búast við að verða þefaðir uppi.

IMG 3539Kaupmannahafnarmenning í Kópavogi.


Bloggfærslur 27. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband