1171 - Skúlaskeið

Friðrik Þór Guðmundsson er einn þeirra sem bjóða mun sig fram til stjórnlagaþings. Hann fjallar nýlega á sínu bloggi um það að sú stjórnarskrárnefnd sem árið 1983 starfaði undir forystu Gunnars heitins Thoroddsen hafi eiginlega verið sammála um að setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur inn í stjórnarskrána. Aðeins það hlutfall kjósenda sem krafist gæti þjóðaratkvæðis var svolítið óljóst. Sennilega hefði þó vel getað náðst samstaða um 25 prósent kjósenda þó einhverjir hafi þá viljað 20 prósent. Sjálfur leggur Friðrik til 15 prósent. Þarna er efinn gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslunum. Líka er spurning hvort ákveðið hlutfall Alþingismanna eigin að geta krafist þess sama, þó prósentutalan yrði eflaust ekki eins. 

Eitt af frægustu kvæðum á Íslenskri tungu er Skúlaskeið eftir Grím Thomsen. Nokkrar glefsur úr því ljóði eru frægari en aðrar. Ef menn vilja lesa kvæðið allt er hægurinn á að gúgla einhverja setningu úr því. Snemma var mér bent á af Gunnari Benediktssyni skáldi að í upphafslínu kvæðisins væri raunar um ofstuðlun að ræða:

„Þeir eltu hann á átta hófahreinum". Þarna eru tvö H svo höfuðstafurinn í næstu línu ætti að vera H líka. Svo er þó ekki eins og margir muna því næsta lína er svona. „og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar".

„Aldrei hefur enn í manna minni
meira riðið nokkur Íslendingur".

Segir líka í þessu eftirminnilega kvæði. Þetta hafa margir kosið að misskilja og margir klúrir og lélegir brandarar verið sagðir um það.

„Það var eins og blessuð skepnan skildi".

Er líka oft sagt og auðvitað er það úr Skúlaskeiði.

„Og í Víðikerum var ei nokkur
vel fær nema Jarpur Sveins í Tungu".

Segir í kvæðinu. Hvaða hestur var þetta eiginlega sem er þar með orðinn ódauðlegur og helst við Sörla sjálfan saman að jafna? Ekki kannast ég við aðrar sögur af honum og veit ekkert um hann.

„Sörli minn! Þig hef ég ungan alið
og aldrei valið nema bezta fóður.
Nú er líf mitt þínum fótum falið,
forðaðu mér nú undan, klárinn góður."

Er líka fræg og eftirminnileg replikka.

Og í lokin þetta: „Sörli er heygður Húsafells í túni" o.s.frv. Ég man að í fyrsta skipti sem ég las þetta kvæði var dramað alveg yfirþyrmandi. Jafnaðist á við Óhræsið eftir Jónas Hallgrímsson. En förum ekki nánar út í það að sinni.

IMG 3436Allt krökkt af berjum.


Bloggfærslur 16. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband