796 - Detox, talnaspeki og nafnlausir bloggarar

Miklar umræður hafa oft orðið í bloggheimum um ýmis hjávísindi. Ég nefni bara tvennt sem mér kemur undireins í hug. Detox og talnaspeki. Hvorttveggja tel ég vera örgustu hjátrú og vitleysu án þess þó að hafa annað fyrir mér en eigið hyggjuvit. Hef ekki nennt að safna sönnunargögnum til eða frá um þetta enda aldrei reiknað með að ég mundi reyna að sannfæra aðra um þetta álit mitt þó ég sé auðvitað að því núna.

Að hægt sé að segja eitthvað til eða frá um skapgerð fólks eftir tölum einum er gersamlega andstætt öllum líkum. Sama er um detox að segja. Það er með öllu ósannfærandi að stólpípur og svelti gagnist fólki almennt þó auðvitað geti það komið að gagni með öðru við ákveðin tilfelli. Ég er sammála Svani Sigurbjörnssyni bloggvini mínum sem hefur skrifað talsvert um þessi mál.

Umræðan um nafnlausu bloggarana er mjög að aukast. Menn eru líka farnir að kveinka sér meira undan skrifum á Netinu en áður var. Björgvin G. Sigurðsson var einhversstaðar að kvarta undan netníði og í sambandi við hans mál var spjallsíðan er.is nefnd. Þar skilst mér að flestir séu með dulnefni og láti allt flakka eða næstum því. Einnig er grein á dv.is um að Tryggvi Þór Herbertsson sé ekki par ánægður með skrif Teits Atlasonar um sig.

Bloggið er sífellt að vinna á. Að kvartað sé undan því sem þar er skrifað bendir auðvitað til að mark sé tekið á því. Það er vel. Stjórnmálamenn eiga líka mun auðveldara með að ná til fólks nú þegar farsímar eru í öðrum eða þriðja hverjum vasa og allskyns tengsl er að auki hægt að hafa gegnum Netið.


Bloggfærslur 7. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband