795 - Sundsmokkar og ýmislegt fleira

Egill Jóhannsson frá Brimborg talar vel um íslensku krónuna á sínu bloggi og að hún gagnist að minnsta kosti útflutningsatvinnuvegunum vel. Þetta kann að vera rétt, en er styrking krónunnar ekki ansi dýru verði keypt? Eru það ekki einmitt seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hamast við að styrkja hana? Kannski með röngum aðferðum, en samt... 

Hrannar Baldursson  ræðir á sínu bloggi um fjölkvæni og margt sem því tengist. Ekki er ég sammála öllu sem hann segir um það. Púkinn bendir síðan á eigið blogg í þessu sambandi og þar og í athugasemdum við það er margt áhugavert að finna. Samkynhneigð kemur líka við sögu þó ég sjái ekki í fljótu bragði hvað hún á skylt við fjölkvæni og þess háttar. Þar er einnig að finna markverðar pælingar um troll eða tröll og margt í því sambandi.

Brandarinn um sundsmokkana gengur nú enn einu sinni um netheima. Hugurinn leitar í ýmsar áttir. Vesalings afgreiðslustúlkan hefur líklega hugsað: "Hvað eru sundsmokkar eiginlega? Je minn, eru sérstakir smokkar fyrir svoleiðis lagað?" Og áfram leitar hugurinn. Kannski eru það syndandi smokkar að forða sér. Ætlaði maðurinn kannski að kaupa sundhettu en ekki sunnudagsmoggann eins og í ljós kemur í lokin.

Á sínum tíma kunni ég kvæðið um Jón hrak að mestu utanbókar. Eftirfarandi línur úr kvæðinu eru mér einkum minnisstæðar.

Eftir japl og jaml og fuður
Jón var grafinn út og suður.

Kalt er við kórbak.
Kúrir þar Jón hrak.
Ýtar snúa austur og vestur
allir nema Jón hrak.

Í kvæðinu er sagt að grafarmenn hafi holað Jóni niður út og suður eftir að hann var dauður. Hvernig höfundur komst að því að kaldara væri að snúa út og suður en austur og vestur vissi ég aldrei. Velti því þó dálítið fyrir mér. Trúmál hafa alla tíð verið mér uppspretta nokkurrar furðu. Of auðveld leið þykir mér þó að afneita öllu slíku sem tómri vitleysu.


Bloggfærslur 6. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband