793 - "Bloggheimar loga," segir mbl.is

„Bloggheimar loga vegna ákvörðunar forsetans," sagði í fyrirsögn á mbl.is. Ekki varð ég mikið var við þessa loga. Um tíu þúsund manns skrifuðu þó undir beiðni til Ólafs um að skrifa ekki undir lögin um ríkisábyrgðina á Icesave-samningnum. 

Að mínum dómi hentaði þetta mál ekki vel til þjóðaratkvæðagreiðslu. Óljóst er hvað unnist hefði ef ríkisábyrgðarfrumvarpið hefði verið fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Störf Ólafs Ragnars að öðru leyti en því að skrifa undir ríkisábyrgðarlögin eru síðan annar kapítuli og engin ástæða til að blanda þessu tvennu saman.

Hávær minnihluti þjóðarinnar er óánægður með allt sem gert er eða ekki gert. Hávaði breytir engu. Valdið er hjá Alþingi. Skoðaði um daginn upptökur frá átökunum í lok síðasta árs og er undrandi á því hve litlu munaði í raun að bylting yrði hér á landi. Nú eru mjög minnkandi líkur á að svo verði.

Ólafur Ragnar Grímsson var síðast kjörinn sem forseti sumarið 2008 (sjálfkjörinn raunar því enginn bauð sig fram á móti honum) og næstu forsetakosningar eiga að óbreyttu ekki að fara fram fyrr en árið 2012. Ólíklegt er að hann bjóði sig einu sinni enn fram þá. Lítil ástæða er til að velta mikið fyrir sér framtíð forsetaembættisins fyrr.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram næsta sumar og næstu Alþingiskosningar eiga samkvæmt fjögurra ára reglunni að fara fram árið 2013. Síðasta kjörtímabil Alþingis var stutt vegna bankahrunsins og vel getur verið að næstu Aþingiskosningar verði fyrir 2013.

Ef halda á stjórnlagaþing sem á að fá rétt til þess að setja nýja stjórnarskrá þarf Alþingi að afsala sér valdi sínu. Ekki er víst að þingmenn geri það með glöðu geði. Ráðgefandi stjórnlagaþing er líklegri möguleiki. Hefð er ekki fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hérlendis og árið 2004 dugði neitun forseta á undirskrift fjölmiðlalaganna ekki.


Bloggfærslur 4. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband