792 - Pólitík og vísur

Bloggið er harður húsbóndi. Að minnsta kosti ef reynt er að ná einhverjum vinsældum. En eru vinsældirnar þess virði að sækjast eftir þeim? Sumir virðast álíta það. Halda jafnvel að aðrir bloggi bara eftir einhverri flokkslínu. Ef menn starfa í stjórnmálaflokki getur slíkt auðvitað verið. Trúi ekki að pólitískar ambissjónir flækist almennt fyrir bloggurum. Sumir þeirra halda kannski að þeir séu marktækir fjölmiðlar en það er önnur saga. 

Eftir hverju fer maður þegar maður les blogg? Ég lít venjulega yfir byrjunina á bloggvinalistanum mínum. Skoða blogg-gáttina. Athuga hvað hefur komið í Google-readerinn minn og svo framvegis. Það sem kannski skiptir mestu máli er í mínum huga nafn bloggarans, fyrirsögnin og fyrstu línur bloggsins og svo það hvort maður hefur í rauninni tíma til að lesa mikið af bloggum. Ekki fer ég með þau í rúmið og svolítinn tíma þarf ég sjálfur til að skrifa mitt blogg.

Þegar ég yrki um fréttatengt efni eru það oftast áreynslumiklar og lélegar vísur sem útúr því koma. Einstöku sinnum eru það samt vísur sem ég er sæmilega ánægður með. Einhverntíma ekki alls fyrir löngu orti ég vísu í tilefni af frétt í blaði og svo vill til að ég man þá vísu og hef sennilega birt hana áður hér á blogginu:

Á Letigarðinn leita ég
frá lymskubrögðum símans.
Þar er vistin þægileg.
Þar er Magga Frímanns.

Ein vísa minnir yfirleitt á aðra. Í ævisögu Guðmundar G. Hagalín er þessi vísa:

Þú ert Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig,
eikin spanga fögur.

Ekki að ég sé að hugsa þannig um Möggu Frímanns enda er konan mín líka stelpa frá Stokkseyri.

Kannski hugsa ég of mikið í vísum. Einhverju sinni sagði Káinn (Kristján Níels Jónsson) þegar hann var af kvennahópi frá Íslandi beðinn að segja álit sitt á stuttu tískunni sem þá var farin að ryðja sér til rúms:

Kæru löndur hvað veit ég
karl um pilsin yðar.
Mér finnst síddin mátuleg
milli hnés og kviðar.

Bloggfærslur 3. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband