817 - Enn um blogg

Sagt er að athugasemdir séu sál bloggsins. Þær eru að minnsta kosti lykillinn að flestum bloggsamskiptum. Sjálfur var ég nokkra stund að átta mig á þessu og hafði framanaf heldur horn í síðu kommenta. Sérstaklega ef þau voru mörg eða óhóflega löng. Ekki aðeins leyfi ég öllum sem vilja að gera athugasemdir við mitt blogg heldur geri ég mér far um að svara sem allra flestum eins og Jens Guð gerir. 

Þeir sem kæra sig lítið um athugasemdir setja á þær hindranir. Ef kommentið mitt birtist ekki strax athugasemdast ég helst ekki aftur á því bloggi. Meira þarf ekki til.

Að loka með öllu fyrir athugasemdir er „síðasta sort" eins og Einar smiður hefði sagt. Þeir sem slíkt stunda vilja greinilega ekki nein bloggsamskipti. Auðvitað geta óþverralegar athugasemdir komið og jafnvel í miklum mæli. Óþarfi hlýtur þó að vera að loka á komment þess vegna til frambúðar.

Hvernig hafa bloggarar samband sín á milli? Hér á Moggablogginu geta menn sent bloggvinum sínum orðsendingar. Villi í Köben sendi sínum bloggvinum (og þar á meðal auðvitað mér) meldingu um að Svanur Gísli væri að trúarbloggast. Talaði jafnt um páfa sem hina ýmsu guði. Ég þangað en treysti mér ekki til að kommenta neitt enda hef ég ekkert vit á trúmálum.

Fyrst þegar ég fór þangað var Jón Valur ekki einu sinni mættur. Nú er hann búinn að bæta úr því. Það minnir mig á að ég ætlaði alltaf að skoða stuðningsblogg þessa kristilega stjórnmálaflokks þar sem deilur eru sagðar hafa verið um það hvort Kapella Háskólans sé fyrir alla eða bara suma. Fann ekki Jón Val meðal bloggvina minna þrátt fyrir ítarlega leit. Síðan gleymdist þetta.

Fast er nú skorað á alla að hætta að Moggabloggast. Gallinn er bara sá að ég veit ekki hvert ég á að fara. Annars færi ég eflaust. Hverjir fara? Og hvert? Hverjir verða eftir? Hverjir styðja Davíð og auka með því tekjur Moggaræfilsins? Þetta eru aðalspurningarnar í dag.

Samkvæmt skilgreiningu Svans Gísla er ég búinn að vera í Sæmundarhætti allt þetta blogg svo nú er ég hættur.

 

Bloggfærslur 28. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband