816 - Gestur Þórhallason

Frá því er sagt í Heiðarvígasögu að Víga-Styr hafi vegið Þórhalla bónda á Jörfa fyrir litlar sakir. Þórhalli átti tvö börn, Áslaugu og Gest. Voru þau bæði ung þegar faðir þeirra var veginn. Gestur Þórhallason var smár vexti og seinþroska. Nokkrum misserum seinna er það var ámálgað við Víga-Styr að hann bætti börnum Þórhalla föðurmissinn í einhverju tók hann því illa og einu föðurbæturnar sem þau fengu var grátt og illa haldið óþrifalamb.

Gesti líkaði þetta að vonum stórilla.

Einhverju sinni þurfti Víga-Styr að gista að Jörfa og laumaðist Gestur þá að honum og eins og segir í Heiðarvígasögu: höggur með öxi af öllu afli í höfuð hönum bak við eyrað hægra megin svo í heila stóð og mælti: „Þar launaði eg þér lambið grá," hleypur út laundyrnar og skellir í lás.

Ekki er að orðlengja það að þarna lét hinn mikli kappi Víga-Styr líf sitt við lítinn orðstír og er orðtakið að launa einhverjum lambið gráa frá þessu komið. Gestur Þórhallason komst undan og lík Víga-Styrs var flutt að Helgafelli til Snorra goða og segir frá þeim atburðum og ýmsu öðru í Heiðarvígasögu.

Nú er ég loksins að verða búinn að lesa bókina „Skáldalíf" eftir Halldór Guðmundsson. Hún er um margt mjög athyglisverð. Fátt eitt í bókinni kemur mér á óvart um Þórberg Þórðarsons. Meðal annars er það eflaust vegna þess að ég hef lesið mikið eftir hann og um hann auk þess sem ég hef alltaf haft nokkurt dálæti á honum.

Eins og flestir vita er einnig sagt frá Gunnari Gunnarssyni í þessari bók. Frásögnin af fundi hans með Hitler er æsispennandi. Hafði reyndar heyrt af henni áður en margt er samt mjög fróðlegt um Gunnar í bókinni. Höfundur bókarinnar er allan tímann dálítið utan og ofan við frásögnina og ekki er fyrir að synja að skoðanir hans liti hana dálítið.

Lára Hanna skrifar góðan pistil um Davíð Oddsson og Teitur Atlason á eyjunni.is bloggar líka skemmtilega um karlinn. Pistillinn hjá Teiti er þó alltof langur og of mikil fljótaskrift á honum. Lára Hanna finnst mér stundum of hatursfull í skrifum sínum og ekki síst þarna.

 

Bloggfærslur 27. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband