815 - D.Oddsson

Er búinn að gæta þess nokkuð vel undanfarið að minnast ekki á Davíð Oddsson hér á blogginu og hefur næstum tekist það. Nei, ég er ekki hættur að moggabloggast og ætla að sjá til hvernig þetta æxlast alltsaman. 

Hef ekki orðið fyrir mikilli pressu með að hætta á Moggablogginu enda er ég svo gamall að ég man vel eftir Hauki pressara þegar hann bjó á Vífilsstöðum. Ég á erfitt með að hætta að blogga alveg fyrirvaralaust hér á Moggablogginu þó mér hugnist ekki sérlega vel að blogga undir stjórn Davíðs. Ég verð að vita hvert ég á að fara með mitt blogg, hvernig sá staður er og svo framvegis.

Þjónustan við okkur bloggarana hérna hefur verið í lagi. Þó stjórnendur bloggsins hafi viljað ráða ýmsu varðandi tengingar við fréttir, stórhausa, nafnlaus skrif og ýmsa lista hefur flokkapólitík ekki ráðið neinu svo séð verði. Bloggarar virðast flestir vera fremur vinstrisinnaðir. Að minnsta kosti þeir sem ég hef lesið mest. Áskriftinni að Morgunblaðinu sagði ég upp fyrir löngu og get ekki gert það aftur.

Moggabloggið er fremst af þeim bloggum sem tengjast blöðum og sjálfur er ég svo vanur að skrifa hér að það mundi verða mér talsvert átak að venjast nýju umhverfi.

Þó Morgunblaðið muni líklega leggja upp laupana einhverntíma á næstunni hef ég þá trú að mbl.is haldi áfram að vera til og þar með Moggabloggið. Sú stefna sem rekin er hér er ekki að öllu leyti slæm. Áherslan er á að fá sem flesta netverja til að heimsækja síðuna. Fréttaskrifin á mbl.is mættu auðvitað vera betri en við höfum fyrrverandi sendiherra hér á Moggablogginu, sem leiðbeinir fólki. Þó ég færi að segja mönnum til í réttritun eða öðru slíku þá er ég enginn Eiður Guðnason. Í mesta lagi einskonar „taxfree outlet of the real thing".

Um daginn horfði ég á Helga Seljan yngri ræða við Jón Bjarnason ráðherra í Kastljósi ríkissjónvarpsins. Annað eins viðtal hef ég aldrei séð. Ráðherrann virtist varla vita nokkurn skapaðan hlut. Þó Helgi þyrfti öðru hvoru að kíkja í glósurnar sínar virtist hann mun betur heima í þeim málum sem rædd voru.

Athyglisverðast fannst mér að ráðherrann virtist ráðleggja mönnum að taka ekkert mark á Samkeppnisstofnum. Og svo er hann á örfáum vikum búinn að breytast úr kvótaóvini í kvótakóng. Verður kannski á endanum stuðningsmaður ESB. - Nei, annars ég meina þetta ekkert.

Hvort er það Árvakur eða Þórsmörk sem gefur út Moggann? Er Þórsmörk kannski bara eignarhaldsfélag sem á þá Kerið og Moggann? Bara að spögúlera.

 

Bloggfærslur 26. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband