791 - Bloggarar ofsóttir

Hrannar Baldursson skrifar oftast mjög athyglisverða pistla. Lýður Guðmundsson talaði víst um það um daginn í Kastljósi að bloggarar og fleiri væru að ofsækja stjórnvöld og aðra. (Útrásarvíkinga??)

Hrannar gagnrýndi þá skoðun og nú vill hann snúa hlutunum við. Það eru bloggarar og hlustendur útvarps Sögu sem segja sannleikann umbúðalausan og lýðurinn (Lýður G.) ofsækir þá.

Hvorttveggja er að nokkru leyti rétt. Gagnrýnendum útrásarinnar og stjórnvalda hættir til að fara offari. Einnig gagnrýnendum bloggsins og Sögu. Öll eru þessi mál að fara í gamla flokkahjólfarið og er það slæmt.

Þegar rætt er um pólitík finnst mér alltaf gagnlegt að nota hugtökin hægri og vinstri þó margir séu mjög á móti því. Með bankahruninu síðastliðið haust varð talsvert mikil vinstri sveifla í landinu. Á sama tíma er að verða mikil breyting á fjölmiðlun allri og margir fóta sig illa í nýja veruleikanum.

Ein er sú auglýsing sem ég hata djúpu hatri. Eins og sumir vita hef ég gaman af að tefla bréfskákir á Netinu án þess þó að tíma að borga fyrir það.

Á vefsetrinu chesshere.com tefli ég jafnan þónokkrar bréfskákir í einu og þar er þessi umrædda auglýsing. Verið er að auglýsa broskalla eða eitthvað þess háttar og það bregst ekki að ég er í djúpum skákpælingum þegar ein broskallafígúran segir skyndilega „say something" hátt og snjallt.

Aldrei bregst það að ég hrekk í kút við þetta og bölva auglýsingunni í sand og ösku.

Þó ég sé skelfilegur rati í matartilbúningi hef ég af einhverjum ástæðum ótrúlega gaman af að lesa skemmtileg matarblogg. Uppgötvaði eitt slíkt alveg nýlega. Elín Helga Egilsdóttir heitir sá Moggabloggari sem þar heldur á penna. Er afskaplega dugleg við að blogga og birtir mikið af myndum. Verst að hún getur varla haldið þetta út mjög lengi.


Bloggfærslur 2. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband