808 - Bless Borgarahreyfing

Ég verð að viðurkenna að ég kaus Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum. Auk þess er ég búsettur í Kópavoginum og ber því einhverja ábyrgð á því að Þór Saari situr á þingi. Ekkert eitt atriði hefur styrkt fjórflokkinn jafnmikið í sessi að undanförnu og það slys. Ekkert er við því að gera úr því sem komið er. Líklegast er að ég kjósi í næstu kosningum einhvern af fjórflokkunum beint eða kjósi ekki.

Hvers vegna hefur kosning Þórs Saari styrkt fjórflokkinn kynni einhver að spyrja? Því er fljótsvarað. Næstu áratugina mun fólk gera ráð fyrir því með réttu eða röngu að ný framboð séu lík Borgarahreyfingunni að því leyti að alls óvíst sé hvernig þingmenn þeirra reynist og þess vegna forðast að kjósa þau.

Orkubloggarinn Ketill Sigurjónsson er sannarlega orkumikill. Blogg hans eru fróðleg og góð. Greinarnar langar og ítarlegar. Langoftast er ég sammála honum en reyni þó að horfa á það gagnrýnum augum sem hann skrifar.

Rætt er um að Páll Baldvin Baldvinsson verði Þjóðleikhússtjóri. Mér líst vel á það. Páli kynntist ég nokkuð þegar ég vann með honum á Stöð 2. Ekki verður logn og ládeyða í kringum embættið ef Páll fær það. Skylmingar hans og Kolbrúnar Bergþórsdóttur í bókmenntaþættinum Kiljunni eru oft skemmtilegar. Að vera í vinsælum sjónvarpsþætti og á allra vörum landar mönnum oft góðum embættum.

Rætt var um rímnakveðskap í síðustu Kilju. Rímnakveðskapur er bráðskemmtilegur ef hann skilst sæmilega en annars er hann hundleiðinlegt þrugl. Ætlast er þó til að hann þyki ævinlega fínn því hann er í tísku núna.

Ágúst Borgþór, sem sjálfur er úrvalsbloggari, sagði einhverntíma á sínu bloggi að það væri hvíld frá alvarlegri skrifum að blogga og meinti örugglega að hann vandaði sig síður við það en önnur skrif. Fyllsta ástæða er samt til að vanda sig við bloggskrif. Einkum ef þau eru það skásta sem maður gerir.


Bloggfærslur 19. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband