801 - Skoðanir Björns Þorra

Björn Þorri lögfræðingur heldur því fram að myntkörfulánin séu ólögleg. Hef ekki mikla trú á að sú túlkun haldi fyrir dómstólum. Menn þar eru yfirleitt íhaldssamir og skíthræddir við stjórnvöld. Röksemd í dómi var eitt sinn að tiltekinn úrskurður yrði ríkinu of þungbær, erfiður og kostnaðarsamur. Réttmæti félagsgjalda í afurðasölufélögum eða eitthvað þess háttar var þar til umfjöllunar, ef ég man rétt.

Björn Þorri segir einnig að "þeir borgi sem geti" aðferðin sem stjórnvöld virðast mæla með gangi einfaldlega ekki upp vegna þess að annaðhvort flytjist fólk úr landi eða komi sér sem skjótast í jaðarhóp til að fá aðstoð.

Að í bloggi mínu númer 800 skuli hafa verið minnst á Bjarna Ármannsson og millurnar hans 800 er hrein tilviljun. Það get ég guðsvarið svo hjálpi mér DoctorE. Ég er alltaf að reyna að skrifa ekki um útrásarvíkingana og bankahrunið en gengur illa. Ekki get ég skrifað um veðrið því ég hef ekkert vit á því. Þykist samt geta greint á milli góðs og slæms veðurs.

Almennt finnst mér athugasemdir við blogg minna virði en bloggið sjálft. Tvær ástæður eru einkum fyrir því. Færri sjá það sem þar er skrifað þó oft eigi það ekkert síður erindi til margra. Menn vanda sig heldur ekki eins mikið í kommentum og á blogginu sjálfu. Þannig er það að minnsta kosti með mig. Á móti kemur að kommentin geta með tímanum orðið sérstök tegund af samskiptamáta og vissulega eiga þau rétt á sér. Þarna er ég auðvitað fyrst og fremst að tala um Moggabloggara og aðra í náðinni. Ekki veit ég hvað þeir eiga að gera sem úthýst er.

Ég er stundum ósáttur við fréttamat fjölmiðla. Tvö dæmi skal ég nefna. Guðný dóttir Bjössa bróður míns var að bera út póst um daginn og þá beit hana hundur. Ekki held ég að minnst hafi verið á það í fjölmiðlum en lauslega þó á fésbókinni. Hitt dæmið er um átökin á Geirsnefi. Mér skilst að hundur hafi einnig komið þar við sögu en veit samt lítið um málið. Hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og mikið á bloggi.

 

Bloggfærslur 12. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband