790 - Samtalsblogg

A: „Þó ég hafi ekki fundið það upp, hentar svona samtalsblogg mér ágætlega."

B: „Einmitt það, já."

A: „Já, þá get ég nefnilega til dæmis talað um melrakkann á Bessastöðum án þess að tala óviðurkvæmilega um forsetann."

B: „Nú?"

A: „Já, það er eiginlega persóna í leikriti sem segir þetta en ekki ég."

B: „Já, svoleiðis."

A: „Svo er þetta líka ágæt aðferð til að koma ýmsu að sem erfitt er að gera öðruvísi. Eins og til dæmis hrósi um sjálfan sig."

B: „Já, já."

A: „Svo get ég alltaf haft annan aðilann voða vitlausan."

B: „Huh. Ekki mig."

A: „Nei, bara einhvern."

B: „Sjálfan þig, kannski?"

A: „Ja. Jæja. Kannski ekki. En samt..."

B: „Æ, þú er svo vitlaus."

A: „Ég? Ekki aldeilis.

Þögn.

A: „Ég er ekkert skyldugur til að standa við allt sem ég segi á mínu bloggi."

B: „Nú, af hverju ekki?"

A: „Ég er nefnilega listamaður."

B: „Er það eitthvert alibi?"

A: „Já. Að sumu leyti að minnsta kosti."

B: „Það finnst mér ekki."

A: „Finnst þér þá að ég ætti að standa við allt sem ég segi?"

B: „Já, eiginlega."

A: „Það er nú dálítið vafasamt. Ég segi svo margt."

B: „Segðu þá bara minna."

A: „Það get ég ekki."

B: „Nú?"

A: „Já, ég verð að blogga um eitthvað sem fólk nennir að lesa."

B: „Sama hvaða vitleysa það er?"

A: „Já, svona næstum því. Ætti ég þá að muna eftir öllum skoðunum sem ég hef á öllu mögulegu?"

B: „Auðvitað. Gerirðu það ekki?"

A: „Ja. Jú, eiginlega."

B: „Hefurðu kannski eina skoðun í dag og aðra á morgun á því sama?"

A: „Nei, nei. Vitanlega ekki."

B: „Hvert er þá vandamálið eiginlega?"

A: „Ég man það ekki almennilega."

Öllu má ofgera. Ég held ég sé hættur þessu í bili. Bein ræða er ágæt þó annað geti hentað stundum. Nú bíðum við semsagt bara eftir að heyra frá forseta vorum og fósturjörð. Ja, kannksi ekki fósturjörð, en næstum því.

Mér finnst leiðinlegt hvernig oft er talað um forsetann. Mér finnst að ekki eigi að láta persónuna sem embættinu gegnir hverju sinni hafa áhrif á virðinguna fyrir embættinu. Þó margir hallmæli forsetanum er það bara í nösunum á þeim. Það er vel hægt að bera virðingu fyrir forsetaembættinu en fyrirlíta öll stjórnvöld í landinu á sama tíma. Óþarfi er að láta upphrópanirnar og reiðina bita á forsetanum.

Ólafur Ragnar getur kennt sjálfum sér að nokkru leyti um það hvernig um hann er talað. Það var fyrir hans tilstilli sem fjölmiðlar fóru að velta sér uppúr öllu sem á Bessastöðum gerist. Auðvitað kemur okkur það við en það er óþarfi að láta einsog einhver óbótamaður sitji þar í óþökk þjóðarinnar.


Bloggfærslur 1. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband