766- Siðferði á bloggi og dálítið um Icesave

Nú virðist endanlega komið í ljós að þeir Moggabloggsmenn ætla ekki að opna aftur á DoctorE. Mér finnst það skaði því margt af því sem Doctorinn safnaði saman víðs vegar að var fengur í að skoða. Hans eigin skrif höfðuðu ekki alltaf til mín þó oft væri hann beinskeyttur mjög og kæmist vel að orði. Líklega er tilgangslaust að skrifa meira um þetta mál að sinni. Það er samt ekki gleymt þó stjórnendur bloggsins vonist eflaust til þess. 

Salvör Gissurardóttur skrifaði einu sinni mikið um siðferði bloggsins og ég sakna þess hve lítið hún skrifar á Moggabloggið nú orðið. Fyrir löngu sagði hún að vissulega skipti miklu máli hver ætti það svæði sem bloggað væri á. Það kæmi ef til vill seinna í ljós.

Mér finnst Moggabloggið að mörgu leyti hafa opinberað sinn innri mann með lokuninni á DoctorE. Samt er ennþá margt gott um það að segja. Þjónustan þar er afbragðs góð. Þeir fylgjast nokkuð vel með nýjungum þó ég notfæri mér fáar þeirra og leyfa hverjum sem er að blogga. Gefa þannig mörgum tækifæri til að hella úr skálum öfga sinna. Það allra besta er samt að með skrifum þar er auðvelt að ná til nokkuð margra.

Að stjórnendur Moggabloggsins skuli vilja hafa stjórn á því hvað og hvernig er skrifað þar er ekkert skrýtið. Allir mundu vilja það. Þeir vilja að sjálfsögðu að sem minnst fari fyrir ritstjórn þeirra en ég vil halda áfram að fjalla um hana.

Allir þeir sem um sárt eiga að binda vegna ofstjórnar þeirra Moggabloggsmanna mega láta af sér vita í kommentakerfinu mínu. Það er opið öllum en verður það kannski ekki lengi. Ef mikið verður kvartað undan ritstjórninni á ég fastlega von á að farið verði fram á það við mig að ég loki á ákveðna einstaklinga og jafnvel að blogginu mínu verði lokað.

Eftir langar og ítarlegar rökræður við sjálfan mig hef ég komist að raun um að ég er á móti því að samþykkja Icesave samninginn eins og hann er. Eða réttara sagt eins og okkur er sagt að hann sé.

Fréttaflutningur af þessum stóra samningi hefur verið í miklu skötulíki frá byrjun. Þó hefur verið ljóst frá upphafi kreppunnar fyrir meira en níu mánuðum hvernig málið er í aðalatriðum vaxið. Reynt hefur verið að leyna sem mestu í sambandi við allt sem snertir þetta stórmál. Það er óþolandi. Ég vil vita nákvæmlega hver skuldin er og um hvað er samið. Einnig hvernig mál hafa þróast og hver áhrif neyðarlaganna eru á samninginn og hver áhrif hans eru á ESB umsóknina.

Fjárlaganefnd Alþingis er búin að hafa þetta mál til meðferðar alllengi og ekki er útilokað að umfjöllun hennar skýri eitthvað. Það er bara alltof seint. Almenningur hefði átt að fá að vita miklu meira um þetta mál og fyrir löngu síðan.

Stjórnvöldum er mátulegt að þetta verði kolfellt. Þó er sú ríkisstjórn sem nú situr skárri en fyrirrennarar hennar og næstum örugglega betri en þeir möguleikar sem bjóðast kynnu ef hún hrökklast frá.

Sennilega binda flestir vonir við að Alþingi vísi þessu máli frá eða gera á því svo gagngerar breytingar að það ónýtist. Hvað þá tekur við er ómögulegt að vita og ekki æskilegt.

Og fáeinar myndir í lokin.

IMG 3818Golf.

IMG 3820Blóm.

IMG 3821Í sumarfríi.

IMG 3825Allt er vænt sem vel er grænt.


Bloggfærslur 7. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband