786 - kjosa.is

Nú er kannski kominn tími til að dusta rykið af kjosa.is. Síðast þegar ég vissi voru meira en 3200 búnir að skrifa sig á þann lista. Kannski eru flestir búnir að gleyma því en þetta vefsetur var stofnað fyrir allnokkru þegar umræðan um Icesave var á frumstigi. Í sem allra stystu máli er þetta áskorun á forseta vorn um að skrifa ekki undir lögin um Icesave ríkisábyrgðina. Sjá nánar á vefsetrinu sjálfu.

3200 er auðvitað ekki mikill fjöldi en ef þeir sem hæst hafa látið útaf Icesave undanfarið hvetja nú alla til að skrifa sig á þennan lista kann þeim að fjölga.

Tónninn í stjórnmálaumræðu hér á landi hefur breyst að undanförnu. Netið á sinn þátt í því. Umræðan þar er ákaflega óvægin. Bloggarar eru mestan part vinstri sinnaðir og gjarnir á að halda að allt sem þeir lesa og segja sé undantekningalaust satt og rétt. Prófkjör og kosningar sýna vel vanmátt bloggsins. Vegur þess fer þó vaxandi og margir lesa greinar þar sér til gagns.

Jón Valur Jensson skrifar mikið á sitt blogg um fréttir dagsins en einkum þó um Icesave og ESB. Þar minnist hann oft á að Jón Sigurðsson forseti hefði gert þetta eða hitt ef hann væri á lífi og fengi að ráða.

Ég er sannfærður um að Jón Sigurðsson hefði verið fylgjandi aðild að ESB. Annars vil ég helst ekki ræða mikið um þetta mál því þá er hætta á að svarhalarnir lengist úr hófi og úr verði þrætubók af versta tagi.

Andstæðingar aðildar segja jafnan að fullveldi og sjálfstæði landsins sé lokið ef af aðild verður og þeir sem slíku mæli bót séu örgustu landráðamenn og svikarar. Þessu verðum við ESB-sinnar að sitja undir en sagan mun dæma um réttmæti þessara fullyrðinga og ekki kvíði ég þeim dómi.

 

Bloggfærslur 28. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband