780 - 60 mínútur

Látinn er í hárri elli Don Hewitt sem stjórnaði lengi og kom á fót hinum fræga sjónvarpsþætti „60 minutes".

Hann stjórnaði líka hinu umtalaða sjónvarpseinvígi milli þeirra John F. Kennedy og Richard Nixons í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 1960.

Sagt er að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem slíkum kappræðuþætti var sjónvarpað beint og hafa margir haldið því fram að þátturinn hafi haft talsverð áhrif á úrslit kosninganna.

Ég man að veturinn 1960 til 1961 var ég í Samvinnuskólanum að Bifröst og í stjórn svonefnds kvikmyndaklúbbs þar. Meðal annars var verkefni okkar að útvega kvikmyndir til sýninga á kvöldvökum þeim sem haldnar voru á laugardögum. Við byrjuðum starfsemina með því að skrifa ýmsum sendiráðum og öðrum aðilum og biðja um efni. Fljótlega fengum við 16 mm filmu frá Ameríska bókasafninu með upptöku af sjónvarpseinvígi þeirra Nixons og Kennedys og sýndum það á einni af kvöldvökum skólans.

Mér er þetta minnisstætt því ekki voru allir sáttir við að sýna þetta efni. Þótti það heldur tilbreytingarlítið og ekki var álitið að allir skildu vel eða hefðu mikinn áhuga á því sem þar fór fram. Textað var efnið að sjálfsögðu ekki. Myndin var líka að ég held sýnd eftir að kosningarnar höfðu farið fram og efnið því ekki mjög fréttnæmt. Minna má líka á að íslenskt sjónvarp hafði ekki tekið til starfa þegar þetta var.

Undanfarið höfum við Hilmar Hafsteinsson kveðist á í athugasemdakerfinu hér. Mér finnst bráðgaman að þessu og er með þeim ósköpum gerður að mér finnst vísnagerðarmenn enga ábyrgð þurfa að taka á því sem fram kemur í vísum þeirra. Þar taka stuðlar og rím oftast völdin af mönnum og vísurnar verða bara eins og þeim sýnist og mér finnst mega segja allt þar og að ekki verði þeim almennilega svarað nema í vísuformi sé.

Svona var þetta alls ekki til forna. Þá voru vísur mun dýrari en annað talað mál. Ritað mál var svo sjaldgæft að ekki tók að tala um það. Við mögnuðum níðvísum gat legið ströng hegning og búast mátti við grimmilegri hefnd.

Og fáeinar myndir svo í lokin.

IMG 3867Sólblóm í Kópavogi.

IMG 3877Dagsbrún.

IMG 3890Veit ekki hvað þetta er.IMG 3895

Í Fossvoginum.


Bloggfærslur 22. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband