779 - Hólmfastur Guðmundsson

Sagan mætir okkur við hvert fótmál. Í framhaldi af fréttum um sölu heitavatnsréttinda á Reykjanesi varð mér hugsað til mun eldra máls. 

Skammt frá Vogum á Vatnsleysuströnd átti eitt sinn heima Hólmfastur Guðmundsson. Árið 1699 seldi hann í Keflavík þrettán fiska sem kaupmaðurinn í Hafnarfirði hafði ekki viljað kaupa. Þetta komst upp og var Hólmfastur dæmdur í sekt. Sektina gat hann ekki greitt því hann átti ekki neitt nema eitt ónýtt bátsskrifli og var hann því hýddur (16 vandarhögg) í votta viðurvist. Með því að selja ekki þeim kaupmanni, sem einokunarlögin mæltu fyrir að hann skyldi selja afurðir sínar, braut Hólmfastur lög og var refsað fyrir það. Lög og reglur hafa oft ekkert með réttlæti að gera.

Miklu seinna voru þeir Duusfeðgar kaupmennn í Keflavík og sveið mörgum ríkidæmi þeirra. Eyjólfur í Króki orti:

Að vera ríkur eins og Duus
óskar sér margur snauður,
eiga fögur og háreist hús,
hvar í býr sæld og auður.
Eitt er meinið, sem allir sjá,
ómögulegt að komast hjá;
loksins að liggja dauður.

Bloggheimurinn er skrýtin skepna og margir óttast hann. Sjálfur er ég nýfarinn að skilja hann almennilega. Á vissan hátt er ég kominn í sálufélag bloggara. Sumt af því sem menn láta þar frá sér fara hugnast mér alls ekki. Einkum finnst mér margir brenna sig á því að vera of orðljótir og taka of mikið uppí sig. Afleitt er að gera of mikið úr hlutunum. Slæmt er líka að vera ónæmur fyrir því sem gerist í umhverfinu og afsaka allt.

Mér finnst íslensk stjórnmálaumræða vera að breytast. Mun fleiri taka þátt í henni núorðið og verra er að halda hlutum leyndum. Mjög er það samt reynt. Bloggið hefur áhrif þarna bæði beint og einnig óbeint með því að hafa áhrif á fjölmiðla. Áhrif bloggsins og Netsins í heild hafa aukist mikið að undanförnu og eiga eftir að aukast enn.

Sagt hefur verið frá því að akur með erfðabreyttu byggi hafi verið eyðilagður í Gunnarsholti. Sé mark takandi á fréttum af þessu finnst mér of langt gengið. Fjarri fer því að sannað sé að erfðabreytt matvæli séu skaðleg. Erfðabreyting ýmiss konar hefur lengi verið stundum í landbúnaði. Nútímatækni hefur vissulega fleygt þessum málum fram en þau skemmdarverk sem unnin eru til að vekja athygli á þessum málum eru oft ekki réttlætanleg.


Bloggfærslur 20. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband