776- Steingrímur Jóhann ræðst að Kjartani

Steingrímur Jóhann réðist með eftirminnilegum hætti að Kjartani Gunnarssyni á Hólahátíð og fjölmiðlar tíunda það vandlega. Hef ekki séð nefnda grein Kjartans í Morgunblaðinu en Kjartan mun eflaust svara Steingrími. Þarna gætu verið í uppsiglingu áhugaverð skoðanaskipti.

Hvað gerir það að verkum að svona erfitt er að koma tölvupósti rétt frá sér á Selfossi? Getur þetta verið eitthvað í landslaginu? Eru draugar kannski meira á sveimi þarna en annars staðar? Eitthvað er það, svo mikið er víst.

Mér fannst ekki gáfulegt hjá Þráni Bertelssyni að líkja þeim Bjarna frænda og Margréti Tryggvadóttur saman. Bjarni tók það líka óstinnt upp. Bæði eru þó haldin Selfoss-heilkenninu. Bjarni ætlaði að dreifa óhróðri um samflokksmann eins og hann taldi vera venju. Margrét taldi hinsvegar að tölvubréf væru jafn vel varin fyrir hnýsni og hugsanir. Sérstaklega ef tekið væri fram að þau væru trúnaðarmál. Bæði ýttu á vitlausan takka á tölvunni. Líklega annaðhvort vegna landslagsins eða draugagangs.

Þó Bjarni hafi eflaust séð eftir þingmennskunni hefur hann tekið örlögum sínum vel. Ekki er víst að kjósendur Borgarahreyfingarinnar taki því eins vel að þingmenn þeirra séu hafðir að háði og spotti. En ekki þýðir að gráta Björn bónda og ekki er séð ennþá hvert mögulegt verður að fleygja atkvæði sínu í næstu kosningum. Fjórflokkurinn bregst ekki.

Google-readerinn er þarfaþing. Hef aldrei komist uppá lag með að notfæra mér RSS strauma á annan hátt. Um daginn ætlaði ég að setja Doktor Gunna í readerinn minn en hann (readerinn) koksaði á því. Af hverju veit ég ekki. Doktor Gunni er úrvalsbloggari. Blogg-gáttin er líka ágæt.

Undanfarið hef ég verið að skoða gömul blogg. Margt er þar athyglisvert. Einkum þykja mér endurminningarnar þess virði að lesa aftur. Hugleiðingar um málefni dagsins eru ekki nærri eins merkilegar hvernig sem á því stendur.

Ég ætla að safna þessu saman og raða uppá nýtt. Kannski sem ég eitthvað til tenginga. Ekki veit ég hvað ég geri svo við þetta en vitanlega er hugsanlegt að ég birti það aftur á blogginu. Ég mun samt aðvara um endurtekningar ef þess gerist þörf.

 

Bloggfærslur 17. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband