774- Um Borgarahreyfinguna

Borgarahreyfingin á bágt núna. Formaðurinn Herbert Sveinbjörnsson segist vera hættur og farinn, Valgeir Skagfjörð einnig og fleiri úr stjórninni. Sömuleiðis Heiða B. Heiðars sem birti á bloggi sínu tölvubréf um Þráin Bertelsson sem Margrét Tryggvadóttir skrifaði Katrínu Snæhólm sem vera mun varamaður Þráins. Því er haldið fram að þetta hafi átt að vera trúnaðarbréf en það hafi fyrir mistök verið sent til allra stjórnarmanna Borgarahreyfingarinnar.

Bréfið er svona:

Takk Katrín fyrir að vera til. Eitt sem mig langar að ræða við þig. Ég hef miklar áhyggjur af Þráni og þar sem þú þekkir hann vel og þekkir e.t.v. betur inn á fjölskyldu hans eða forssögu en ég langar mig að bera þetta upp við þig. Kannski er það ímyndun að þú sért betur inn í hans málum en við en - það má alla vega reyna. Við höfðum áhyggjur af því snemma í sumar að hann væri að síga í eitthvert þunglyndi en svo virtist það brá af honum. Ég ræddi við sálfræðimenntaðann mann í dag sem er vel inni í málum hreyfingarinnar og hann grunar að Þránn sé með altzheimer á byrjunarstigi. Hann tók það skýrt fram að þetta væri einungis kenning og auðvitað hefur hann ekki rannsakað Þráinn. Ég hafði ekki leitt hugann að slíku þótt mér fyndist þetta skýra margt. Hvað finnst þér? Kv., MT

Lítil afsökun er að segja að þetta hafi átt að vera trúnaðarmál. Það er það ekki og ef bréfritari hefur ekki annað sér til afsökunar er bréfið nógu alvarlegt og rætið til að viðkomandi segi af sér þingmennsku.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðustu kosningum hafa flestallir þingmenn Borgarahreyfingarinnar hagað sér á vítaverðan hátt. Enn má þó ráða bót á málum en því aðeins að hjaðningavígum linni. Horfast þarf í augu við ófullkomleika mannskepnunnar og byrja uppá nýtt.

Það sem nú hefur orðið Borgarahreyfingunni að falli er hörmulegt. Einkum vegna þess að í framtíðinni munu litlu eins máls framboðin eiga enn meira undir högg að sækja en áður og fjórflokkurinn eflast. Allir sem áhuga hafa á stjórnmálum sjá nú að varla þýðir annað en binda trúss sitt við einhver af hinum fjórum svokölluðu flokkum sem fjórflokkinn mynda.

Í síðustu kosningum leið Frjálslyndi flokkurinn undir lok vegna innbyrðis deilna. Von margra var að nýtt og framsækið afl væri á ferðinni þar sem Borgarahreyfingin var.

Það er segin saga að allir flokkar og flokksbrot sem ekki ganga í heilu lagi í fjórflokkinn lognast útaf og hverfa. Þau verða eflaust örlög Borgarahreyfingarinnar og það jafnvel strax í næstu kosningum.

 

Bloggfærslur 15. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband