773- Milos Forman og Larry Flynt

Það er þreytandi að vera alltaf alvarlegur. Hæfilegt kæruleysi er nauðsyn. Hvernig þeir, sem ekki hugsa um annað en Icesave og þessháttar óhugnað daginn út og daginn inn, komast hjá þunglyndi skil ég ekki.

Milos Forman studdi Larry Flynt. Athyglisvert. Saga Larry Flynt er á margan hátt saga málfrelsis í Bandaríkjunum. Larry þessi gaf út tímaritið Hustler sem frægt varð að endemun. Af dæmi hans má læra að auðvelt er að tryggja málfrelsi þeirra þægu og góðu. Þegar aftur á móti á að tryggja málfrelsi vafagemlinga og klámkjafta vandast málið. Morgunblaðið tryggir ágætlega málfrelsi þeirra þægu og góðu. Húsmæður í Vesturbænum eru ekki teknar í karphúsið. Eiginlega á ég ekki heima á Moggablogginu. Mig langar nefnilega að vera vafagemlingur og klámkjaftur.

Hér eru tvær vísur sem ég gerði fyrir margt löngu. Var búinn að gleyma þeim en þær komu allt í einu upp í huga minn. Veit ekki af hverju.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur.
Við orðaþrautir ekki deigur.
Andlegur minn stækkar teigur.

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Er geitungastofninn að ná sér á strik aftur? Ekki er ég frá því. Mér finnst þeir hafa angrað mig meira í sumar en undanfarin ár. Þeir bíta samt aldrei enda er samkomulag okkar á milli um að ég láti þá í friði ef þeir ráðast ekki á mig.

Fyrir daga geitunganna voru býflugurnar stóru og loðnu allsráðandi. Ekki fer miklum sögum um að þær bíti fólk. Á Vegamótum stunduðu strákarnir mínir talsvert stórhættulegar býflugnaveiðar. Man eftir því úr eldhúsinu þar að einhverjum, sem lagði hendi sína í mesta sakleysi á sultukrukku á borðinu, brá ónotalega þegar uppgötvaðist að hún var full af suðandi býflugum.

Varla er hægt að segja að tíðindi dagsins hafi verið andstæðingum Icesave hagstæð. Mannfjöldinn á Austurvelli sagður hafa verið á þriðja þúsund og Davíð Oddsson þar á meðal. Góð samstaða um það sem ofan á verður að lokum er þó flestu öðru mikilvægara.

 

Bloggfærslur 14. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband