770 - Um kreppuna

Að mörgu leyti finnst mér lífið eftir hrun vera betra en það var. Aðvitað eiga sumir um sárt að binda en ég gat aldrei sætti mig við að Hrunadansinn væri hið eðlilega líf. Öllum gömlu gildunum var snúið á haus. Lán sem einu sinni var mikið lán að fá voru nú ekkert lán lengur. Fæstir bjuggust þó við að í þeim væri bölvun fólgin. Nú eru gömlu gildin komin á kreik aftur og þá er eiginlega bara betra að lifa en áður var. Lífið fer smám saman í fastar skorður hjá flestum. Verst hvað allir eru deprímeraðir útaf þessum árans Icesave-samningi. 

Margir virðast halda að græðgisvæðingin hafi hafist hér á landi þegar bankarnir voru seldir. Svo er ekki. Hún er eldri. Allt frá fyrstu Viðeyjarstjórninni hefur sú stefnumörkun ráðið mestu í íslenskum stjórnmálum að hver sé sjálfum sér næstur og persónufrelsið skuli vera öllu ofar. Mannkærleikur, samvinna, fórnfýsi og annað slíkt var álitið hlægilega gamaldags.

Allt skyldi mælt á vog peninga og draga skyldi sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins á öllum sviðum. Þetta var í samræmi við skipbrot kommúnismans í Sovétríkjunum og víðar. Í Evrópu og þó einkum á Norðurlöndum var samt hefð fyrir samvinnu og ríkisafskiptum og margir voru tregir til að afnema slíkt með öllu. Erfitt var þó að standa á móti hinum nýju gildum. Þau gömlu höfðu svo sannarlega beðið eftirminnilegt skipbrot í Sovétríkjunum.

Nú er það hins vegar komið í ljós að ekki var rétt að kasta öllu því gamla fyrir borð. Sparsemi og nýtni er aftur að komast í tísku. Heimskreppan lendir kannski verr á okkur Íslendingum en mörgum öðrum vestrænum þjóðum en það er ekkert spursmál að við náum að vinna okkur útúr þessu. Þeir sem allra verst fara útúr kreppunni eru þeir sem minnst höfðu. Þannig hefur það alltaf verið og þannin mun það halda áfram að vera.

 

Bloggfærslur 11. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband