645. - Við borgum ekki. Að minnsta kosti helst ekki

Hlustaði á silfur Egils í morgun og tilfinningin var sú að við Íslendingar ættum í rauninni bara um tvær leiðir að velja. Höfum raunar átt þess kost allt frá bankahruninu mikla síðastliðið haust að segja annarsvegar: „Við borgum ekki". Eða: „Við borgum ef við mögulega getum. Hvað sem það kostar." 

Mér finnst allt hafa stefnt í það undanfarið að fara eftir seinni setningunni. Það er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill. Fjórflokkurinn og þar með stjórnvöld einnig. Búsáhaldabyltingin ekki. En fáum við vesæll almúginn rönd við reist? Ég held ekki.

Auðvitað yrði þungbært og erfitt um tíma að borga ekki. Það vita þeir sem stjórna. Allt yrði gert til að láta hlutina líta sem verst út. Völd stjórnvalda og fjármálastofnana eru mikil. Fjölmiðlarnir hálfónýtir. Bloggið frjálst en máttvana.

Inn í þetta blandast verðtrygging og lífeyrissjóðir. Það er bara það sem fjölþjóðafyrirtækin vilja. Allt á að vera svo flókið að venjulegt fólk skilji málin ekki. Það á bara að þræla og helst að skulda sem mest. Það má lappa svolítið uppá lífskjörin ef þess er gætt að auka skuldirnar um leið.

Ísland er áhugaverð tilraun. Obama vill koma. Allir vilja kynna sér málin hér. Hér ætlar hið alþjóðlega peningavald að leggja vestræna þjóð að velli í fyrsta sinn. Komið og sjáið hvernig farið er að því.

Tuttugu prósentin framsóknar eru bara kosningabrella. Peningar eða verðmæti verða ekki til úr engu. Eignatilfærsla er þetta líka í stórum stíl. Auðvitað var rán útrásarvíkinganna líka eignatilfærsla á sinn hátt. Ein vitleysa verður þó ekki lagfærð með annarri.


Bloggfærslur 6. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband