670- Evrópa Evrópa Evrópa

Miklu meira heyrist í Evrópuandstæðingum í fjölmiðlum þessa dagana en stuðningsmönnum aðildar. Það sem hæst ber í fréttum núna er að einhver stækkunarstjóri hjá sambandinu á að hafa sagt að Íslendingar fengju engar undanþágur. Hvað átti maðurinn að segja? „Jú, við viljum endilega fá ykkur og göngum að öllum ykkar kröfum." Það sem hann segir skiptir engu máli og hann hefur oft sagt þetta áður.

Sífellt er hamrað á því að hitt og þetta gerist eða gerist ekki ef við göngum í sambandið. Fæst af því er rétt eða skiptir verulegu máli. Mestu máli skiptir að halda áfram tengslum við vinaþjóðir okkar. Við getum ekki eilífllega ákveðið að vera í sama báti og Norðmenn. Þó finnst mér ekkert að því að sætta sig við að vera utan sambandsins ef þjóðin hafnar hugsanlegu samkomulagi.

Að verið sé að láta af hendi sjálfstæði landsins er fjarstæða. Sömuleiðis munum við eins og aðrar þjóðir í ESB halda fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar. Kannski þó ekki fiskimiðunum ef áfram verður haldið með óbreytta stefnu þar og sömu hlutir í boði hvað það snertir og síðast þegar Norðmenn ákváðu að ganga ekki í ESB. Einn heyrði ég um daginn halda því fram að ekki væri hægt að ganga úr Evrópubandalaginu og því til sönnunar nefndi hann að Suðurríkin í Bandaríkjunum hefðu viljað ganga úr sambandi sínu við Norðurríkin en það hefði kostað stríð. Þrælastríðið svonefnda.

Vissulega snerist það stríð meðal annars um rétt ríkja til að segja sig úr ríkjasambandinu. En það eru næstum 150 ár síðan það stríð hófst og þarna er verið að leggja þessi tvö ríkjasambönd að jöfnu sem auðvitað er fjarstæða. Ef því er raunverulega trúað að farið yrði með hernaði á hendur okkur ef okkur dytti í hug að hætta er engin furða þótt tilfinningar séu miklar í þessu máli. Grænlendingar gengu úr sambandinu 1985 og ekki var ráðist á þá. Færeyingar eru reyndar ekki heldur í ESB enda vildu þeir ekki fara þangað þegar Danir gengu í sambandið árið 1972 og komust að sjálfsögðu upp með það.

Ekki liggur sérstaklega á að fara í viðræður um aðild að Evrópubandalaginu. Því er til dæmis haldið fram að Svíar sem fara munu með forystu í sambandinu síðari hluta þessa árs verði okkur svo hagstæðir. Slíkt er afar ósennilegt. Fremur er hægt að trúa því að hagstæðara væri fyrir okkur að vera í sambandinu þegar fiskveiðistefna þess verður endurskoðuð og að hugsanlega snúist margt okkur í vil við það eitt að ríkisstjórnin sæki um aðild. Þessu er þó valt að trúa. Við höfum lengi stillt okkur um að sækja um inngöngu í ESB og ætti ekki að verða skotaskuld úr að bíða aðeins lengur.

Samningsstaða okkar Íslendinga er heldur alls ekki sérlega góð um þessar mundir. ESB sækist áreiðanlega ekki eftir að fá okkur. Að allt muni breytast hér samstundis ef við göngum í ESB er örugglega ekki rétt. Vextir og verðlag munu þó lækka smám saman, stöðugleiki aukast og skipulag á mörgum sviðum fara að líkjast því sem er í ESB. Heimskulegt er að halda því fram að atvinnuleysi hér yrði undir eins sambærilegt við meðaltalið í ESB. Það þarf ekki annað en líta á mismunandi atvinnuleysi hjá ESB þjóðum til að sannfærast um það.

Samt sem áður kýs ég fremur aðild að sambandinu en aðildarleysi. Einkum vegna þess að við hljótum að þróast með tímanum annaðhvort í átt til Evrópu eða Bandaríkjanna ef við viljum ekki stefna á einangrun og útilokun frá samfélagi við aðra og ég tek Evrópu framyfir Bandaríkin af ýmsum ástæðum.

Að setja aðild að ESB upp sem reikningsdæmi þar sem hugsanlegur ávinningur er öðru megin en mögulegir ókostir hinum megin er fjarstæða því bæði munum við sem þjóð og ekki síður ESB breytast og þróast með árunum. Það sem mestu máli skiptir er að fylgjast með tímanum og einangrast ekki. Þeir sem þreytast ekki á að útmála ESB sem ímynd hins illa eru auðvitað að mæla með aukinni einangrun þó þeir neiti því ef til vill og bendi á samninga við þjóðir annars staðar en í Evrópu. Þá er einkum talað um þjóðir sem eru miklu stærri en við og óskyldari okkur en Evrópuþjóðir. Ólíklegt er að þær hafi mikinn áhuga á samningum við okkur. Gróði okkar af því til lengri tíma litið yrði líka mjög vafasamur jafnvel þó hægt væri að græða til skammst tíma á nálægðinni við ESB.


Bloggfærslur 30. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband