642. - Um greinarmerkjasetningu og fleira. Ekki minnst á gæsalappir

Í tali manna um bankahrunið er áberandi hve margir þykjast hafa frábært vit á þessum hlutum. Í ljósvakamiðlunum forðast fólk að segja að það skilji ekki við hvað er átt þó flest af því sem sagt er sé mjög illskiljanlegt. 

Í sinni einföldustu mynd eru hægri og vinstri stefnur báðar stórgallaðar. Þetta vita allir og að miðjumoðið svokallaða er eina vonin. En hvernig á að hræra þessu saman svo vel sé? Íslendingar eru oft dálítið öfgafullir. Eftir stríðið voru allskyns höft og önnur óáran alltof lengi við lýði hér á landi. Þegar þeim var loks komið fyrir kattarnef var gegnið of langt í hina áttina og nú erum við að súpa seyðið af því.

Það sem háir mér langmest í sambandi við skrif allskonar er greinarmerkjasetningin. Orðin og réttritunin koma að mestu leyti af sjálfu sér og oftast nær einhver hugsun með. Greinarmerkin, og þá sérstaklega kommusetningin, koma hinsvegar að mestu leyti eftirá og bara þar sem mér finnst eðlilegast.

Ég geri ráð fyrir að margir eigi við svipaðan vanda að etja. Það er samt óþarfi að láta hann trufla sig. Hvað mig snertir eru flest greinarmerki nema komman fremur einföld í notkun. Gleymast þó stundum. Verst finnst mér að sífellt er verið að hringla með þetta mál og reglur sem að því lúta eru illskiljanlegar. Mér finnst orðfærið og stafsetningin segja margt um skrifin, en kommusetningin lítið. Öðrum kann að finnast greinarmerkjasetningin skipta meira máli en málfarið.

Keypti um daginn á bókamarkaðnum í Perlunni bók sem heitir: „Reglur um íslenska greinarmerkjasetningu". Sú bók er gefin út árið 2007 af hinu íslenska fornritafélagi. Bókin sem er eftir Jónas Kristjánsson er sjálfsagt hin merkasta. Mér finnst hún samt hið mesta torf.

Eftir því sem ég kemst næst af lestri þessarar bókar er íslensk greinarmerkjasetning í tómu rugli. Sérstaklega kommusetningin einsog mig hefur lengi grunað. Eiga kommur að vera „greinarmerki" eða „lestrarmerki"? Jafnvel „skýringarmerki" eða eitthvað allt annað?

Núorðið forðast ég kommur eins mikið og ég get, en nota þær samt öðru hvoru. Punktarnir eru aftur á móti orðnir mitt uppáhald. Það er alltaf hægt að byrja uppá nýtt og hafa setninguna þannig að stór stafur sé eðlilegur.


Bloggfærslur 3. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband