662- Hrannar Baldursson veit hvað hann vill og rökstyður mál sitt vel

Hann fjallar um kosningar á bloggi sínu og mér finnst flest annað sem ég sé og heyri um pólitík þessa dagana aðallega vera hávaði. Hávaði getur auðvitað átt rétt á sér og verið nauðsynlegur en mér finnst Hrannar segja það sem segja þarf.

Skammstafanir eru ær og kýr fjölmiðlamanna. Þeim þykir mjög gaman að slá um sig með allskyns skammstöfunum. Jöfnum höndum eru skammstafanirnar dregnar af íslenskum og enskum nöfnum og frösum. Engar tilraunir eru gerðar til að útskýra fyrir óinnvígðum hvað þessar skammstafanir þýða. Ef þú veist ekki hvað ÖSE, RÖSE, IMF, AGS, EU, EBE, EBS, EEC, EES, ECC, UN, SÞ og allt mögulegt annað þýðir þá ertu bara ekki viðræðuhæfur um landsins gagn og nauðsynjar.

Fyrsti pésinn sem ég eignaðist var Cordata tölva sem ég keypti í Microtölvunni. Hún hafði tvö fimm og kvart tommu floppy drif en engan harðan disk. Skjárinn var innbyggður og að sjálfsögðu grænn að þeirrar tíðar hætti. Einhvers staðar er hún enn til og orðin forngripur hinn mesti.

Þegar ég stóð í því að setja efni á Netútgáfuna í hverjum mánuði fengum við oft tölvupósta frá hinum og þessum. Eitt sinn fengum við bréf frá íslenskum námsmanni í Noregi. Ekki man ég hvað hann heitir en hann var búsettur þar og átti tvö börn. Hann sagði okkur í bréfinu að börnin sín væru orðin háð íslenskum þjóðsögum sem hann nálgaðist á vef Netútgáfunnar og neituðu með öllu að fara að sofa nema fá eina sögu lesna fyrir sig á hverju kvöldi. Af einhverjum ástæðum yljaði þessi frásögn mér meira en margar aðrar.

 

Bloggfærslur 23. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband