659- Kosningar og Evrópumál einn ganginn enn

Nú er runninn upp tími kosningaáróðursins. Hann tröllríður bæði blöðum og bloggi. Allir eru á kafi í pólitík. Kosningarnar verða eflaust spennandi en þó ekki. Skoðanakannanir draga úr spennunni. Þær eru sumar furðulegar og ótraustvekjandi. Af einni heyrði ég þar sem Ástþór og Co. voru langefstir með vel yfir 30 prósent atkvæða á öllu landinu.

Evrópumálin koma talsvert inn í umræðuna. Sú umræða er einkennileg og ótrúlega tilfinningaþrungin. Flestir gera ráð fyrir að krónan sé ónýt en margir tala út og suður um að taka upp einhverja aðra mynt með illu eða góðu. Krónan getur gagnast okkur ef við viljum helst vera eins og korktappi á ólgusjó. Sveiflast þar upp og niður en þó aðallega niður vegna þess að íslensk stjórnvöld verða aldrei þau skynsömustu í heimi.

Eiginlega er bara um tvennt að ræða. Reyna að lappa uppá krónuræfilinn með aðstoð alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þreyja Þorrann og Góuna með harmkvælum miklum og kannski árangursleysi eða sækja sér skjól með samvinnu við aðra. Þar er Evrópusambandið nærtækast hvað sem hver segir.

Eitthvað skárra en krónan kemur ekki bara til okkar sisvona. Ef við ákveðum að sækja um aðild að EU gæti evran komið einhverntíma. Annars aldrei. Krónan er ónýt og því ónýtari sem gjaldeyrishöftin vara lengur. Ekkert bendir til þess að þau höft hverfi fyrr en krónunni verður kastað.

Það er lítill vandi að finna upp eitthvað til að framleiða ef innflutningur leggst að mestu af eins og útlit er fyrir. Sápugerð fyrir innanlandsmarkað gæti verið ein leiðin.

Ég minninst þess að um 1960 fórum við á Samvinnuskólanum í heimsókn til Akureyrar. Þar voru Sambandsverksmiðjurnar í blóma og meðal annars sáum við sápugerð. Hráefnið í handsápuna kom í löngum ormi til vélarinnar sem mótaði hana. Verkstjórinn sýndi okkur stoltur að mótunarvélin sló ekki mótinu niður nema tekið væri í stýringar undir borðinu með báðum höndum af stúlkunni sem sat við vélina. Þetta væri mikið öryggisatriði og kæmi í veg fyrir slys.


Bloggfærslur 19. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband