653- Af hverju mistókst útrásarvíkingunum að sölsa undir sig Orkuveituna?

Varðandi pólitík hef ég ekki miklu við það að bæta sem ég hef áður skrifað. Ég bíð eftir marktækri skoðanakönnun og tel að það sem einkum verður rætt um varðandi bankahrun og stjórnmál fram að kosningum sé kosningaáróður. 

Ég er svo undarlega þenkjandi að mér finnst lykilspurningin í spillingarmálunum vera þessi: Af hverju mistókst útrásarvíkingunum að sölsa undir sig Orkuveituna? Á þessum tíma mistókst þeim ekki margt. Eiginlega var allt sem þeir gerðu gott og fallegt. Stöku sinnum dálítið torskilið en gott samt.

Ég mun svo reyna að forðast að fjalla um stjórnmál framvegis. Það er óttalega tilgangslaust. Flestir eru búnir að ákveða sig og álit minni háttar bloggara skipta litlu. Hætt er við að ef maður álpast til að blogga um stjórnmál sé erfitt að hemja sig. Haldi semsagt áfram að blogga um þessa vitleysu og annað komist varla að. Fjölbreytni er aðalkostur bloggsins.

Ég les alltaf málfarspistlana Eiðs Guðnasonar. Hann er samt stundum fullsmámunasamur. Um daginn var hann að afsaka villur (sínar eigin) með því að hann kunni ekki fingrasetningu. Hafi lært í MR og þar hafi verið til siðs að kalla Verslunarskólann vélritunarskólann. Ég lærði fingrasetningu á Bifröst. Það var fyrir daga rafritvélanna. Mér er alltaf minnisstæður djöfulgangurinn sem skall á í skólastofunni þegar okkur var sagt að byrja.


Bloggfærslur 14. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband