652- Fáein orð um flokkana

Mér sýnast vera vaxandi líkur á því að ég muni kjósa Borgarahreyfinguna í næstu kosningum. Sumt af því sem þaðan kemur hugnast mér þó ekki fullkomlega, en enginn gerir svo öllum líki.

Sjálfstæðisflokkur.
Hef aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn og það væri fráleitt að fara að breyta því núna.

Samfylking.
Ég kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum en finnst hún eða fulltrúar hennar hafa brugðist í landsstjórninni. Þróun í átt til tveggja flokka kerfis er að sumu leyti æskileg við þær aðstæður sem nú ríkja. Innganga Ómars Ragnarssonar í flokkinn dugar mér ekki.

Framsóknarflokkur.
Hann hefur breytt nokkuð um ásjónu og vissulega er þar margt ágætisfólk. Sporin hræða samt og ekki er hægt að treysta því að gamla spillingarliðið sé orðið óskaðlegt.

Vinstri grænir.
Koma vissulega til greina. Eru samt of vinstrisinnaðir. Kannski er ég bara of hægrisinnaður fyrir þá. Þeir eiga alveg eftir að sanna sig við stjórn landsins. Hætt er við að þeim farist það ekki vel.

Frjálslyndir.
Of einstrengingslegir og miklir eins máls menn. Þar að auki er ekki annað að sjá en þeir séu á leiðinni út úr íslenskri pólitík. Rífast of mikið innbyrðis. Rasistastimpillinn er kannski ósanngjarn en hefur áhrif samt.

Lýðræðishreyfingin.
Af ýmsum ástæðum er ég á móti Ástþóri Magnússyni. Finnst hann setja of mikinn svip á framboðið.

Óskastaðan hefði verið að geta kosið sameiginlegt framboð Borgarahreyfingarinnar, Lýðræðishreyfingarinnar og samtaka þeirra sem Ómar Ragnarsson veitti forstöðu.

Auðvitað eru fáir mér sammála í öllum atriðum. Geta þó kannski fallist á einhver þeirra. Svo getur þróunin fram að kosningum breytt bæði mínu áliti og annarra.

 

Bloggfærslur 13. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband