638. - Ef þú skilur þetta ekki þá skilurðu ekki neitt. Skilurðu það?

Fátt er jafnskemmtilegt að horfa á og ófarir annarra. Ræðumenn nota gjarnan þá aðferð til að upphefja sjálfa sig að gera lítið úr öðrum. Vinsælir sjónvarpsþættir gera útá ófarir og niðurlægingu þó stundum sé reynt að leyna því. Um þetta má finna mörg dæmi. Ég ætla að nefna nokkur

Fyndnar fjölskyldumyndir hét þáttur sem var afar vinsæll fyrir fáeinum árum. Mest gengu þessar fjölskyldumyndir útá hverskyns slys og óhöpp og byggðust vinsældirnar einkum á því. Núorðið er slíkt að mestu leyti komið á Netið og vinsælt er að senda það sem víðast.

Spurningaþættir allir eru einkum um það hvað þátttakendur séu vitlausir. Þeir sem heima í stofu sitja geta alltaf svarað einhverju sem ekki kemur svar við í sjónvarpinu. Slíkt er það langeftirminnilegasta úr þáttunum. Svo eru mistök dómara náttúrulega hreinn hvalreki.

Tveir spurningaþættir eru vinsælastir nú um stundir. Það eru Útsvar og Gettu betur. Í Gettu betur er flýtirinn slíkur að venjulegt fólk missir af flestu. Þættirnir eru einkum gerðir fyrir þátttakendurna og klappliðin enda fer áhorf mjög minnkandi. Í Útsvari byggist allt á léttleikanum. Þar er þátturinn sniðinn til þess að skemmta sem allra mest. Spyrlarnir reyna að ryðja úr sér bröndurum en auðvitað snýst allt um það að einhverjir verða að tapa.

Spurningaþátturinn sem tröllreið sjónvarpi fyrir nokkrum árum og hét Viltu vinna milljón? (Íslensk milljón var reyndar svo lítil að nafnið var hálfasnalegt) byggðist auðvitað á því að skemmtilegast var þegar þátttakendur götuðu jafnvel þó reynt væri að hjálpa þeim. Og allra skemmtilegast var auðvitað þegar þeir töpuðu sem mestu með því að gata. Einstöku sinnum götuðu menn þó ekki. Það var bara til að fólk yrði síður vart við niðurlæginguna.

Idol-þættirnir vinsælu og ýmsar eftirlíkingar þeirra byggjast á því að niðurlægja þá sem tapa. Kosið er um þá vinsælustu en auðvitað er það taparinn sem mestu máli skiptir.

Raunveruleikaþættir ýmsir byggjast á þessu sama. Þar er oft ekki einu sinni reynt að dulbúa niðurlæginguna heldur beinlínis kosið um það hverjir eigi að fara heim. Tvöfeldni og hverskyns fláræði borgar sig best þar eins og í lífinu. Það er að segja útrásarlífinu.

 

Bloggfærslur 30. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband