637. - Bankahrunið, þjóðsögur, Davíð Oddsson og nokkrar myndir

Margir eru uppteknir af því hverjum bankahrunið síðastliðið haust sé að kenna. Mér finnst það litlu máli skipta. Aðalskúrkarnir eru auðvitað eigendur bankanna sem stálu beinlínis frá okkur stórkostlegum fjárhæðum. 

Hinir bera auðvitað líka nokkra sök sem leyfðu þeim að komast upp með þetta. Gerðu þeim kleift að komast framhjá regluverki sem hefði átt að stöðva þá.

Starfsfólk á auglýsingastofum bankanna, sem gjarnan voru kallaðar greiningardeildir eða eitthvað þess háttar, ber líka nokkra sök. Eflaust trúðu margir því fólki. Það gerði sér líka far um að vera trúverðugt þó ekki sé erfitt núna eftirá að sjá hverslags steypu það lét frá sér fara.

Margar þjóðsögur eru til um viðskipti manna við Kölska. Mig minnir það hafi verið Sæmundur fróði í Odda sem ráðlagði einhverjum sem var að vandræðast með viðskipti sín við þann í neðra að prófa að reka við og segja um leið:

„Gríptu það, gríptu það og málaðu það grænt."

Þetta mundi Kölski eiga í vandræðum með að framkvæma og þá mundi maðurinn losna við ágang hans.

Þetta dettur mér oft í hug þegar ég heyri rekið við eða talað um að eitthvað sé grænt.

Það liggur við að ég vorkenni Vilhjálmi Egilssyni þó ég meti skoðanir hans yfirleitt ekki mikils. Hann liggur undir sífelldum árásum Davíðs Oddssonar og þar hlýtur eitthvað að búa undir. Ég man þá tíð að Vilhjálmur barðist við Sturlu Böðvarsson í forkosningum á Vesturlandi. Talað var um falsanir, atkvæðakaup og hvers kyns ótugtarskap.

Allt útlit var fyrir að harkan milli þeirra mundi fara vaxandi en að lokum féllust þeir á að Davíð skæri úr um ágreininginn milli þeirra. Hann tók taum Sturlu í málinu og stakk dúsu upp í Vilhjálm. Af einhverjum ástæðum þarf Davíð enn að ná sér niðri á Vilhjálmi. Auminginn á sér varla viðreisnar von innan flokksins.

Davíð sagði að skýrsla Vilhjálms Egilssonar og fleiri væri illa skrifað plagg. Sama sagði Sigurður litli Einarsson um skýrslu Seðlabankans sem tekin var saman í febrúar 2008 og gerð opinber fyrir stuttu. Illa skrifað blogg er eiginlega það sama. Ég reyni að forðast að blogga illa. Stundum tekst mér sæmilega upp við það en ekki alltaf.

Í lokin eru svo hérna nokkrar myndir:

IMG 2206Trampólín.

IMG 2219Fyrrverandi trampólín. Hér hefur eitthvað gengið á.

IMG 2207Já, svona fer kreppan með suma. Bara búið að negla fyrir gluggana.

IMG 2212Ekki kannski Southfork en sennilega næsti bær við.

IMG 2213Ég hélt alltaf að brunahanar væru gulir en í Kópavogi eru þeir allavega á litinn. Sá einn eldrauðan þar um daginn. Ágæt hugmynd að hafa vaskafat hjá brunahananum.

IMG 2217Fáir skorsteinar eru núorðið í Kópavoginum en þeim mun skrautlegri þeir sem eftir eru.

IMG 2222Ísklumpur alveg að fara að bráðna (vonandi).

IMG 2229Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

 

Bloggfærslur 29. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband