633. - Um Helga Ágústsson og Kaupfélag Árnesinga

Eitt sinn vann ég í pantanadeild Kaupfélags Árnesinga hjá Helga Ágústssyni frá Birtingaholti. Magnús bróðir hans var héraðslæknir í Hveragerði og hann þekkti ég einnig vel. Helgi var einstakur. Einu sinni sneri hann sér skyndilega að okkur Rúnu og sagði: „Nú veit ég hvaða orð ég hef skrifað oftast um ævina. Vitið þið það? Það er ekki nafnið mitt." Auðvitað vissum við það ekki en Helgi sagði okkur það strax. „Það er orðið fóðurbl."

Pantanir voru sóttar á mjólkurbílana og þegar búið var að taka upp af þeim það sem sækja þurfti af matvöru tók Helgi upp af þeim þungavöruna áður en við Rúna skrifuðum út pakkavöruna sem á þeim var. Helgi skrifaði síðan út þungavöruna sem auðvitað var aðallega fóðurblanda. Þungavörulistana skrifaði hann einhverra hluta vegna jafnan standandi við púlt.

Helgi hafði gaman af vísum. Einu sinni laumaði hann til mín á miða eftirfarandi vísu:

Langar þreygir hjalar hlær.
Hikar bíður grundar.
Sprangar eygir falar fær.
Fikar ríður brundar.

Honum hefði aldrei dottið í hug að fara með þessa vísu svo kvenfólk heyrði.

Pantanadeildin var í austurenda stórhýsis Kaupfélagsins og gengið inn í hana bakatil. Allmikill fjöldi starfsfólks var þar en við vorum bara þrjú á skrifstofunni. Skúli faðir Sigurjóns Skúlasonar sem seldi mér glósubækurnar á Bifröst sællar minningar vann þarna meðal annarra og einnig kona Lúðvíks verslunarstjóra í Vefnaðarvörudeildinni.

Áður en mjólkurbílstjórarnir fóru heim komu þeir í pantanadeildina að sækja þær pantanir sem búið var að taka til. Einnig þungavöruna samkvæmt útskriftarlistum Helga.

Stundum var Helgi að blaða í gömlu dagbókunum sínum og sagði til dæmis skyndilega: „Vitið þið hvernig veðrið var á þessum degi fyrir 5 árum?" Auðvitað vissum við það ekki og höfðum takmarkaðan áhuga á því, en Helgi sagði okkur það samt.

Dagbækurnar hans voru merkilegar heimildir. Þar var að finna margra ára safn af lýsingum á veðri, færð og ýmsu sem gerst hafði hjá þessu merka fyrirtæki í áranna rás. Helgi hafði unnið hjá Kaupfélaginu frá því það var stofnað árið 1930. Hann hafði að sjálfsögðu þekkt vel Egil Thorarensen í Sigtúnum sem var fyrsti kaupfélagsstjóri félagsins. Egill var nýlátinn þegar þetta var.

 

Bloggfærslur 25. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband