629. - Smápælingar um komandi kosningar

Hér eru bollalleggingar um hvað líklegt sé að standi okkur til boða í kosningunum í vor.

B - Framsóknarflokkurinn.
Hef einu sinni kosið framsóknarflokkinn en er hættur því. Töfralausnir hans hafa hingað til reynst illa. Ber líka heilmikla ábyrgð á bankahruninu í raun. Meiri endurnýjun virðist vera hjá honum en öðrum meðlimum fjórflokksins.

D - Sjálfstæðisflokkurinn.
Sjálfstæðismenn trúa því að bankahrunið sé bara slys. Flokkurinn og frjálshyggjan sé það rétta, en sumt fólk bara gallað. Margir kjósendur virðast trúa því að flokkurinn breytist eftir þörfum eins og hendi sé veifað.

F - Frjálslyndi flokkurinn.
Sé ekki annað en menn haldi bara áfram að slást þar. Hætta og byrja til skiptis meðan fylgið hrynur. Tækifærið er samt þeirra en þeir vilja ekki sinna því.

O - Borgarahreyfingin.
Kannski er þetta framboð líklegast til afreka af nýju framboðunum. Friðrik Þór og Valgeir Skagfjörð eru aðalmennirnir ef marka má Moggabloggin.

L - Fullveldissinnar.
Hafa lítið fram að færa nema EU-andstöðuna. Varla er það líklegt til fjöldafylgis.

S - Samfylkingin.
Já, ég kaus Samfylkinguna síðast en finnst hún hafa brugðist. Var samt ekki eins lengi í stjórn útrásarinnar og sumir aðrir, en hefði átt að hætta miklu fyrr. Svo er Ómar búinn að gefast upp og farinn þangað. Kannski hressist Eyjólfur að lokum.

V - Vinstri Grænir.
Of rauðir fyrir mig. Með langhreinastan skjöld af meðlimum fjórflokksins. Öfgafólk virðist eiga of auðvelt með að vaða þar uppi. Hafa varla verið stjórntækir undanfarið en vilja eflaust sanna sig.

Ég er ekki viss um að lýðveldisbyltingin svokallaða nái því að bjóða fram. Þar er enn verið að ræða málin og örugglega eru þau ekki fullrædd. Varla eru margir sammála mér um þetta og þar að auki eiga sjónarmið mín eflaust eftir að breytast. Svona lít ég samt á málin akkúrat núna. Örlög persónukosninga og stjórnlagaþings munu ráðast á Alþingi næstu daga og úrslit þeirra mála eru mér mun hugleiknari en þessar kosningar sem eru talsvert úti í framtíðinni. Þær verða samt afar mikilvægar. Skoðanakannanir benda til talsverðrar vinstri sveiflu sem líklega verða aðaltíðindi þessara kosninga.

Svo eru hér fáeinar myndir.

IMG 1892Þetta er líklega snjómaðurinn ógurlegi.

IMG 1911Hellisheiðarvirkjun.

IMG 1917Ætli það sé kviknað í fjallinu? Nei, þetta er Skarðsmýrarfjall hjá Hellisheiðarvirkjun.

IMG 1996Eins gott að það er heitur pottur í nágrenninu!!

IMG 2035Kirkja skammt frá Minni-Borg í Grímsnesi.

IMG 2041Ingólfsfjall.

IMG 2084Annaðhvort á að koma þarna sumarbústaður eða þetta eru ungir símstaurar.

IMG 2100Varðmaður við sumarbústað í Grímsnesinu.

IMG 2107Óveðrið nálgast.

IMG 2110Mér sýnist að þetta sé skurður og plaströr liggi ofan í hann.


Bloggfærslur 21. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband