628. - Bókmenntarugl og pólitískar hugleiðingar í lokin

Fáir hafa komist með tærnar þar sem Guðmundur Daníelsson hefur hælana í tilgangslausum skrifum. Bloggaði í heilt ár um tilurð einhverrar hundómerkilegrar skáldsögu og skrifaði heila bók um heimsmeistaraeinvígið sem háð var árið 1972 án þess að hafa hundsvit á skák. Samt átti stíll Guðmundar vel við mig og ég hef lesið margt eftir hann. Greinar hans í Suðurlandi og viðtalsbækurnar sumar eru stórfróðlegar. 

Ég er óhefðbundinn í bókmenntasmekk. Hef til dæmis aldrei lesið neitt eftir Tolkien og er sannfærður um að flestar bóka hans séu bæði leiðinlegar og ómerkilegar. Reyndi um daginn að lesa bók Elísabetar Jökulsdóttur sem byrjar á krassandi frásögn um samfarir í Central Park en gafst upp á henni eftir nokkrar blaðsíður. Mér fannst hún rembast svo mikið við að vera skáldleg. Það fer alveg öfugt í mig. Hef samt lesið margt eftir mömmu hennar og líkað vel. Sá eini af þeim sem ég hef lesið eitthvað eftir nýlega og má alveg rembast við að vera skáldlegur án þess að verða leiðinlegur er Jón Kalman Stefánsson.

Á sínum tíma las ég „Sjálfstætt fólk" eftir Kiljan og fannst hún nokkuð góð. Flest annað frá hans hendi er bölvað rusl. „Hella" eftir Hallgrím Helgason er ágæt bók en síðan hefur honum stöðugt farið aftur. Sífelldir orðaleikir hans eru fyrir löngu orðnir hundleiðinlegir. Gat aldrei klárað 101 Reykjavík því mér þótti hún svo léleg. Hallgrímur er samt ágætur í að dangla í bílinn Geirs Haarde.

Hef alltaf haft dálítið álit á Einari Kárasyni sem sögumanni. Las á sínum tíma bækur hans um Camp Knox og svo hef ég lesið báðar bækurnar hans um Sturlungu og finnst góðar.

Las um daginn bók eftir Hildi Helgadóttur sem heitir „Í felulitum." Ekki verður Hildur sökuð um að rembast við að vera skáldleg. Hún segir frá verunni í breskri friðargæslusveit í Bosníu og bókin er á margan hátt lipurlega skrifuð og eftirminnileg. Ekki samt svo að ég fari að endursegja hana hér.

Fátt er eins líklegt til að auka lýðræði í landinu og persónukjör. Langlíklegast er þó að fjórflokknum takist einu sinni enn að drepa slíkar nýmóðins hugleiðingar. Þó einhvers konar stjórnlagaþing verði samþykkt má alltaf drepa niður þann árangur af því sem kann að vinna gegn fjórflokknum. Valdamiklir þingmenn og flokksleiðtogar munu sameinast um að persónukjör sé stórhættulegt.


Bloggfærslur 19. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband