598. - Sérkröfur verður að salta. Samstöðu er þörf

Mér finnst langþægilegast að vera beggja handa járn í flokkspólitískum skilningi. Þó ég sé stundum svo vinstri sinnaður að mér finnst sjálfum nóg um get ég ómögulega neitað því að Hólmsteinninn kemur oft vel fyrir sig orði, Davíð var slyngur stjórnmálamaður hér áður fyrr og Björn Bjarnason er rökfastur og skýr í hugsun.

Hallgrímur Helgason er í bókum sínum of gefinn fyrir ódýra orðaleiki en óþarfi að kalla hann Baugspenna fyrir það eitt að dangla í geirinn hans Bíls.

Var að hlusta á kastljósupptöku. Ógleymanlegt að hlusta á Simma og Arnþrúði. Sérstaklega þegar Simmi sagði eftir að hafa lýst því fjálglega að allir ættu að snúa bökum saman og bla bla bla, að það væru tvær þjóðir í landinu. Þá segir Arnþrúður, snögg upp á lagið. "Og eiga þær að snúa bökum saman?"

Stjórnmálamenn og aðrir sem fjasa um kreppuna í ljósvakamiðlum ruglast oft á milljónum og milljörðum. Eiginlega er það engin furða. Gott væri ef allar skuldir gætu minnkað sem því nemur.

Varðandi Davíðsmálið vil ég bara segja það að þrátt fyrir deildar meiningar um margt verður ekki deilt um það að hann hefur sýnt forsætisráðherra landsins yfirgang og ókurteisi. Mál virðast nú vera að þróast á þann veg að vera Davíðs í Seðlabankanum er orðin svo táknræn að hann verður að víkja. Því miður er þetta mál að verða svo pólitískt að hvernig hann fer getur skipt verulegu máli. Jóhönnu er trúandi til að meðhöndla þetta mál með þeirri mildi og ákveðni sem til þarf.

Í komandi kosningum getum við sýnt valdamönnum hver hugur okkar er. Sem betur fer trúi ég því að mark sé takandi á kosningum hér. Ef takast á að koma á markverðum stjórnarfarsbreytingum er mikilvægt að það komi fram í kosningunum í apríl. Mikil þörf er að stilla saman strengi. Allir verða að stefna í svipaða átt. Sérkröfur verður að salta.


Bloggfærslur 9. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband