594. - Enn um afbakaða málshætti og þessháttar

Í þetta skipti ætla ég að skýra þá pínulítið og segja hvernig ég held að þeir eigi að vera. Tólf síðustu eru nýir. 

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
   Þarna er tveimur málsháttum slegið saman. Hann kom eins og þjófur á nóttu og eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Hann lenti milli steins og steggja.
   Milli steins og sleggju (eða skips og bryggju)

Róm var ekki byggð á einni nóttu.
   Róm var ekki byggð á einum degi. (Held ég. Nota sjaldan sjálfur)

Það er ekki hundur í hættunni.
   Það er ekki hundrað í hættunni. (En hvaða hundrað er þetta?)

Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
   Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig. (Að sjálfsögðu)

Þar kom horn úr hljóði.
   Þar kom hljóð úr horni.

Þegar í harðfennið slær.
   Þegar í harðbakkann slær.

Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
   Þetta er nú ekkert til að hrópa húrra yfir.

Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
   Þið eruð eitthvað svo sposkir á svipinn.

Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
   Ekki fyrr en eftir dúk og disk.

Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
   Láttu ekki slá að þér. Þú gætir forkulast.

Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
   Hann steig ekki feilspor í leiknum.

Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
   Það þýðir ekkert að lofa og lofa, en efna svo aldrei neitt.

Að hellast úr lestinni.
   Að heltast úr lestinni. (Hestur úr heybandslest)

Svo lengist lærið sem lífið.
   Svo lengi lærist sem lifir.

Að bera í blindfullan lækinn.
   Að bera í bakkafullan lækinn.

Að slá tvö högg með einni flugu.
   Að slá tvær flugur í einu höggi.

Hann sendi mér augntotur.
   Hann sendi mér augnagotur.

Sjaldan launar kálfurinn ofbeldið.
   Sjaldan launar kálfur ofeldið.

Að slá sjö flugur í sama höfuðið.
  (Kann ekki að skýra þennan).

Fyrir neðan allan þjófabálk.
   Út yfir allan þjófabálk.

Illt er að kenna gömlum hundi að skíta.
   Illt er að kenna gömlum hundi að sitja.

Punktur og pasta.
   Punktur og basta.

Fátt er svo með öllu illt að ekki geti versnað.
   Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Að hafa vaðið fyrir neðan nefið.
   Að hafa munninn fyrir neðan nefið. (Og að hafa vaðið fyrir neðan sig.)

Það verður að taka þetta með almennilegum vettlingatökum. (Höskuldur Þórhallsson ruglaðist á þessu í þingræðu en komst kannski ekki nákvæmlega svona að orði.)

   Það duga engin vettlingatök á þetta.

Það er ekki hægt að koma þessum ketti í nös.
   Þetta er ekki upp í nös á ketti.


Staður konunnar er á bak við eldavélina.
   Staður konunnar er við eldavélina. (Mjög umdeilanlegt - vægast sagt - þessi afbökun er oft eignuð Guðna Ágústssyni)

Að láta ekki deigið síga.
   Að láta ekki deigan síga.

Oft má saltkjöt liggja.
   Oft má satt kyrrt liggja.

Nú er komið annað hljóð í skrokkinn.
   Nú er komið annað hljóð í strokkinn.

Öl er annar maður.
   Öl er innri maður.

Gera býflugu úr úlvaldanum.
   Gera úlvalda úr mýflugu.

Vil gjarnan heyra um meira svona. Afbakaðir málshættir og orðtök geta verið bráðskemmtileg tilbreyting. Líka ruglað suma í ríminu.


Bloggfærslur 5. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband