592. - Meira um dýradráp

Blogg mitt frá í gær virðist hafa vakið athygli. Heimsóknir eru með meira móti segir teljarinn. Kannski er það einkum fyrirsögnin og fyrstu línurnar sem fólk tekur eftir. Hvað veit ég?

Mín grundvallarafstaða til allra veiða er sú að aldrei skuli taka líf að ástæðulausu. Sú ástæða að skemmtilegt sé að drepa finnst mér ótæk. Við drepum flugur og önnur kvikindi af því að þau pirra okkur og valda óþægindum. Húsdýr af ýmsu tagi eru einnig drepin til matar. Sumum finnst sú ástæða ekki merkileg en mun betra er að sætta sig við hana en skemmtanagildið eitt.

Það má endalaust deila um dýravernd. Mörg sjónarmið eru uppi. Þegar konur kasta klæðum í nafni dýraverndar er verið að rugla saman sjónarmiðum og vekja athygli á einu máli með allt öðru.

Einn af þeim sem gerði athugasemd við grein mína í gær taldi að auka mætti veiðar til matar og það getur vel átt við hér á Íslandi. Ég vil hinsvegar gjarnan horfa hnattrænt á málin og tel að svo geti alls ekki verið í heiminum sem heild. Mannkynið væri miklu betur á vegi statt hvað fæðu snertir ef menn legðu sér almennt ekki kjöt til munns. Alltof stór hluti ræktanlegs lands er notaður til að framleiða gras fyrir grasbíta sem síðan eru étnir.

Fiskveiðar í sjónum eru okkur Íslendingum mikilvægar. Veiðar á landi hafa núorðið takmarkaða efnahagslega þýðingu. Svo mun einhverntíma einnig fara með sjóinn. Hann mun samt lengi taka við og ástæðulaust er vonandi fyrir okkur Íslendinga að hafa áhyggjur af framtíð fiskveiða. Þó verðum við að einhverju leyti að taka tillit til umheimsins og eru hvalveiðar dæmi um það.


Bloggfærslur 3. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband