888 - Icesave enn og aftur

Mér finnst bloggið orðið pólitískara en áður var. 

Icesave er alla að drepa. Margir blogga samt þindarlaust um það.

Spákonur og alls kyns hjávísindi eru vinsæl hjá ljósvakamiðlunum. Heyrði um eina slíka sem spáði falli Icesave-frumvarpsins og einhverju fleiru. Ég spái hinsvegar að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi en hvort forsetinn neitar undirritum eða ekki get ég ekki séð.

Forsetinn er á leiðinni í óþolandi aðstöðu. Áskoranir um að undirrita ekki Icesave lögin eru orðnar það margar að það er sama hvort hann gegnir því eða ekki, óvinsældir hans munu aukast. Það gerir ekki mikið til fyrir hann en embættið mun líða fyrir það. Hann getur ekki beitt sér eins og hann langar til enda brugðust útrásarvíkingarnir honum gersamlega. Eins og hann hafði gaman af þessu.

Ég er ekki að hæðast að Ólafi. Hann breytti ýmsu í sambandi við embættið og lánaði útrásarvíkingunum kraft þess en vildi vel og er ekki nærri eins skyni skroppinn og sumir útrásarvíkinganna. Hefur líka beðist afsökunar á sínum hlut í útrásinni.

Einhver hrikalegustu mistök sem gerð hafa verið í lagasetningu eru neyðarlögin svokölluðu. Um þetta hef ég bloggað áður og ætla ekki að endurtaka það. Icesave er stórt mál en þó bara hluti af þeim vanda sem við Íslendingar glímum við. Algjör hugarfarsbreyting er nauðsynleg. Fjórflokkurinn stendur styrkur sem fyrr en innviðir hans breytast.

Vænn hluti af starfi blaðamanna í dag er að fylgjast með markverðum bloggskrifum. Flestir hafa ýmigust á bloggurum en þeir eru ómissandi eins og hver önnur óværa. Fréttir eiga oft uppruna sinn hjá þeim og þegar fólk sem ekki hefur annað að gera fer að pæla í því sem þeir halda fram getur ýmislegt komið í ljós. Svo lenda þeir stundum í einhverju frásagnarverðu.

Ég hef svo stutt „attention span" að ég nenni afar sjaldan að lesa löng og ítarleg blogg. Kannski eru bloggin mín styttri þessvegna. Reyni alltaf að lesa bloggin mín yfir áður en ég sendi þau út í eterinn og yrði átakanlega lengi að því ef þau væru eins löng og hjá sumum.

Það eru til allskonar blogg. Pólitísk blogg, trúarblogg, vísindablogg, málfarsblogg, tónlistarblogg o.s.frv. Verst hvað ég hef áhuga á mörgu. Les blogg og jafnvel bækur stundum en hentugt væri ef bloggin væru ekki svona áhugaverð.

 

Bloggfærslur 7. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband