886 - Grímulaus árás

Sé ekki betur en blaðamannafundur stjórnarandstöðunnar og tillaga um að vísa Icesavemálinu frá sé árás á ríkisstjórnina. Tvísýnt er um að hún takist. Líklegt er að viðbrögð ríkisstjórnarinnar ráði mestu um hvernig fer. Einkennilegt er að í áskorun stjórnarandstöðunnar er lagt til að ESB miðli málum.

Gefið er í skyn að ríkisstjórnin ætli sér að láta handhafa forsetavalds samþykkja Icesave frumvarpið en ekki forsetann sjálfan. Það væri hættulegur leikur hjá stjórninni.

Þingmaður úr stjórnarliðinu leggur til að Icesave málið verði tekið úr höndum Alþingis. Sú lausn kann að verða ofaná.

Vinsælt er af mörgum sem vilja vera hátíðlegir í þingræðum að fjölyrða um sögu landsins. Auðvelt er að túlka hana á margan hátt. Sumir reyna að fyrna mál sitt sem mest og tala sem hæst.

Fyrir nokkru sá ég ógleymanlegt brot úr kvikmynd. Þar var einhverfur drengur að staulast niður stiga eða tröppur og hafði mikið fyrir því sem flestum hefði verið auðvelt. Held að þetta hafi verið úr íslensku kvikmyndinni sem nefnd er „Sólskinsdrengurinn."

Nú eru sagðar fréttir af því að HBO sjónvarpsstöðin bandaríska hafi keypt þessa mynd og að hún verði hugsanlega tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Á uppboði hjá góða hirðinum voru ýmsir áhugaverðir munir til sölu. Mesta athygli mína vakti gamaldags þvottabretti sem kaupandinn ætlaði að nota sem einhvers konar taktstokk. Sú var tíðin að þvottabretti voru ekki spor merkileg. Man vel eftir slíkum hlutum í notkun. Einnig taurullum sem nú er alveg hætt að nota. Þvottabretti voru svo algeng áður fyrr að notkun orðsins í óeiginlegri merkingu um slæma malarvegi skildu allir.

Myndræn framsetning hugmynda getur verið af því góða. Slík framsetning tíðkast mjög á Netinu. Vel er þó hægt að setja flestar hugmyndir í orð.

Mjög hefur tíðkast undanfarið hjá stórum fyrirtækjum að tala fremur um svið en deildir. Til dæmis eru flestar tölvudeildir nú orðnar að upplýsingasviðum. Þá sé ég jafnan fyrir mér sviðahaus með gulum minnismiða. Þetta væri einfalt að setja fram á myndrænan hátt.


Bloggfærslur 5. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband