885 - Moggabloggið

Ég hef fylgst með íslenskum bloggum síðan um aldamót eða svo. Markverðasta nýjungin sem fram hefur komið á þeim tíma er Moggabloggið. Þar var öllum, sem á annað borð litu öðru hvoru inn á fréttavefinn vinsæla mbl.is, gefinn kostur á að blogga ókeypis á afar einfaldan hátt. 

Að leyfa öllum að blogga eins og þeim sýndist hafði ýmsa galla sem Moggabloggið hefur ekki farið varhluta af. Ýmislegt sem stjórnendur Moggabloggsins hafa fitjað uppá síðan þeir byrjuðu hefur fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum bloggurum. Eyjan og fleiri hafa fengið til sín marga af bestu Moggabloggurunum. Þeir hafa þó ekki gengið eins langt í því að leyfa öllum að blogga eins og þeim sýnist án endurgjalds og losna því við sum þeirra vandamála sem hrjáð hafa Moggabloggið.

Veran á Moggablogginu tók nýja stefnu þegar Davíð Oddsson gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Allmargir vinsælir bloggarar fóru þá annað og létu þarmeð pólitískar skoðanir hafa áhrif á blogg sitt. Síðan hefur Moggabloggið látið talsvert á sjá. Ég er samt ekki að skrifa þetta vegna þess að ég ætli að hætta hér á Moggablogginu.

Nokkuð er um það hjá fyrirtækjum að lokað sé fyrir fésbókaraðgang og jafnvel að fleiri vefsetrum þó aðgangur að Internetinu sé óhindraður að öðru leyti. Ég efast ekki um að þetta sé gert til þess að starfsfólk freistist síður til að vanrækja vinnuna. Samt felst í þessu vanmat á starfsfólkinu og hugsanlega er hægt að túlka þetta sem tilraun til umræðustýringar. Ekki er mér kunnugt um að fyrirtæki loki fyrir aðgang að innlendum fréttamiðlum eða bloggsetrum og líklega er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.


Bloggfærslur 4. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband