884 - Blogg, Icesave og ESB

Enn fjölgar Eyjubloggurum og er það engin furða. Mogginn gerir í því að fæla fólk frá sér. Þar er samt mjög gott að blogga og hugsanlega er mbl.is ennþá dálítið vinsælla en Eyjan sem fréttamiðill.  

Sýnist að Eyjubloggararnir Lára Hanna og Ómar Ragnarsson ætli sér að blogga einnig á Moggablogginu. Kannski eru fleiri sem það gera. Hef bara ekki gáð. Annars fer þeim alltaf fækkandi bloggunum sem ég nenni að lesa. Les heldur ekki blöð eða bækur að neinu ráði. Lifi mest í gamla tímanum. Kíki þó jafnan á stórhausana á Moggablogginu, Blogg-gáttina, Eyjuna, Google readerinn og bréfskákirnar mínar. Póstinn minn líka öðru hvoru. Skoða jafnvel stöku sinnum dv.is og visi.is, einnig bloggvinina og tilkynningar frá þeim. Auk þess horfi ég talsvert á sjónvarpsfréttir. Verð að viðurkenna að ég les fremur blogg hjá Moggabloggurum en Eyjubloggurum og skoða afar sjaldan blogg hjá Bloggheimum nema mér sé sérstaklega vísað þangað. Til dæmis af Blogg-gáttinni eða Readernum mínum.

Andstæðingar ESB halda því jafnan fram að með aðild tapi Íslendingar fullveldi sínu. Þetta er bara skoðun en ekki staðreynd. Fulltrúar þeirra þjóða sem eru meðlimir telja lönd sín fullvalda og lítið er efast um það. Þegar Austur-Evrópu þjóðirnar gengu í ESB töldu flestir sem þar búa að einmitt væri verið að styrkja fullveldið með því að ganga í ESB.

Samt er enginn vafi á því að með aðild framselja ríkin hluta fullveldis síns til sameiginlegs bandalags. Þetta hefur alltaf verið ljóst og er einmitt grundvöllur sambandsins. Upphaflega töldu ríkin það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir styrjaldir í álfunni. Síðan hefur sambandið þróast og aukið mjög velsæld aðildarríkjanna, einkum þó með hinum stóra sameiginlega markaði.

Sambandið er semsagt í þróun og ekki hægt að segja með vissu hvert það stefnir. Ekkert er samt sem bendir til þess að stórríki með svipaða stöðu og Sovétríkin sálugu eða Bandaríki nútímans sé á döfinni.

Nú er þess farið á leit við Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands að hann neiti að undirrita nýju lögin um Icesave. Beiðnin setur Ólaf í nokkurn vanda. Þegar hann neitaði að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004 bjuggust margir við að hann mundi minnast sinnar pólitísku fortíðar og gera það. Nú búast fáir við að hann neiti undirskrift. Samt gæti svo farið. Reikna samt með að núverandi ríkisstjórn mundi í  því tilfelli efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í raun og veru. Í Icesave málinu gæti þó allt fallið í ljúfa löð á síðustu stundu til dæmis með einhverjum smávægilegum breytingum.

Ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur mun hún alls ekki snúast eingöngu um Icesavemálið heldur ekki síður um stuðning við ríkisstjórnina og hvað líklegast sé að taki við verði Icesavefrumvarpið fellt. Við gæti blasað alvarleg stjórnarskrárkreppa ofan á allt annnað.

Málþóf er nú stundað af miklu kappi á Alþingi af „svokölluðum þingmönnum". Einn þeirra talaði um daginn um „svokallaða bloggara". Eiginlega er bloggið allt eitt risavaxið málþóf. Samt væla þingmenn undan því. Mér finnst að  stjórnarandstaðan megi stunda málþóf ef hún álítur það nauðsynlegt og ófært að þingmenn hennar séu að kveinka sér undan því að heyrist í „svokölluðum kjósendum" .


Bloggfærslur 3. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband