909 - Samstöðu er þörf

Við Íslendingar þurfum sterkan leiðtoga sem mögulega getur leitt okkur út úr núverandi erfiðleikum. Ekki er að sjá að hann sé meðal þeirra sem nú fjasa um stjórnmál dagsins. 

Grátlegt er að öll mál skuli verða pólitísk þegar útlitið er eins slæmt og augljóslega er núna. Hafi einhverntíma verið þörf samstöðu til að komast yfir erfiðleika er það nú. Þegar Íslenska Lýðveldið var stofnað var mikil samstaða um það. Framan af voru þó margir sem vildu fara mun hægar í sakirnar. Þeir voru kallaðir lögskilnaðarmenn.

Nú er ríkisstjórnin ákveðin í að koma Icesave-málinu áfram og fátt virðist geta komið í veg fyrir það. Þetta mál hefur skipt þjóðinni í fylkingar með eindregnari hætti en lengi hefur verið.

Þetta mál er svo stórt að flokkapólitík má ekki eyðileggja það. Það er líka svo lítill hluti þess heildarvanda sem við er að glíma að ekki er rétt að allir hlutir kristallist í því.

Þeir sem því spá að hér sé allt á leið til ömurleikans með landflótta, þjóðargjaldþroti, skömmtun á lífsnauðsynjum og öllu því versta sem hægt er að hugsa sér hafa örugglega rangt fyrir sér. Líka þeir sem segja að hér sé nánast allt í lagi. Lífskjörin muni um nokkurra ára skeið versna svolítið en síðan muni allt verða í lagi.

Hverju á fólk að trúa? Lausn mála felst ekki í því að styðja blint þann stjórnmálaflokk sem hver og einn er vanur. Lausnin felst í samstöðu. Til þess að hún náist þurfa allir að slá af sínum ýtrustu kröfum. Það gera stjórnmálaflokkarnir ekki.

Stefna ríkisstjórnarinnar er lykilatriði. Ekki er samt rétt að berjast með öllum ráðum gegn því sem hún ætlar sér. Heldur ekki að styðja allt sem þaðan kemur. Ef til vill er þjóðstjórn lausnin en vandséð er hvernig hún getur komist á. Valdið er hjá Alþingi en ekki er að sjá að þaðan komi nein lausn.


Bloggfærslur 28. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband