903 - Rjúpnaveiðar

Ég er ekki mikill veiðimaður. Allra síst skotveiðimaður. Reyndi slíkt samt einu sinni fyrir margt löngu. Þá var ég útibússtjóri í Kaupfélagi Árnesinga í Hveragerði. Keypti mér 22 calibera riffil og fékk byssuleyfi. Til að fá það leyfi þurfti ég læknisvottorð og lítið annað. Magnús læknir var fljótur að afgreiða það og sagði bara: „Já, enmitt. Þú sérð vel og heyrir vel er það ekki?" Skrifaði svo vottorðið og með það fór ég á sýsluskrifstofuna á Selfossi og þar með var það búið.

Þá var að ná sér í rjúpurnar. Einhverjir héldu því fram að betra væri að nota haglabyssur en riffla í rjúpnaskytterí en ég komst fljótt að því að riffillinn hentaði ágætlega því ef maður gætti þess að skjóta frekar ofan við þær en neðan við, þá flugu þær ekki alltaf upp og þá gat maður bara skotið aftur. Jafnvel aftur og aftur.

Var einn þegar ég fór fyrst. Þá fór ég upp í Reykjafjall og gekk hörmulega að hitta kvikindin þó ég passaði mig á að skjóta frekar yfir þær en undir. Held ég hafi enga hitt og komið rjúpulaus til baka.

Næsta ferð var með Mára Mikk. Hann var líka með riffil og slysaðist til að særa
eina rjúpu og náði henni á hlaupum. Kunni ekki að sálga henni og setti hausinn á henni með annarri hendinni fyrir framan byssuhlaupið og hleypti af.

Í þeirri ferð man ég eftir einni sem flaug ekki upp þegar ég skaut í námunda við hana heldur tók til fótanna og faldi sig á bak við stein. Ég var ekki viss en sýndist ég sjá eitthvað hvítt koma upp fyrir steininn. Skaut á það uppá von og óvon og aldrei þessu vant hitti ég beint í mark. Þetta var semsagt hausinn á rjúpunni sem tættist allur upp við þetta.

Eitt sinn man ég líka eftir mér með Herði mági ofarlega í Skálafelli (syðra) og þar hafði mér tekist að plaffa eina niður án þess að drepa hana alveg. Reyndi að snúa hana úr hálsliðnum en kunni það ekki. Sneri bara og sneri en ekkert gerðist. Hörður sýndi mér svo hvernig átti að gera og síðan kann ég að snúa rjúpu úr hálsliðnum þó aldrei hafi reynt á þá kunnáttu mína.

Þegar leið að jólum voru tvær rjúpur að velli lagðar og jólamaturinn klár. Þær voru svo hengdar upp með mikilli viðhöfn og étnar á jólunum. Síðan höfum við samt af einhverjum ástæðum ekki haft rjúpur í jólamatinn.


Bloggfærslur 22. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband