902 - Skák og mát

Nýlokið er í London gríðarlega sterku skákmóti. Auðvitað var það Magnús Carlsen sem sigraði á mótinu. Hann er norskur og okkur Íslendingum að góðu kunnur. Stigahæstur skákmanna í heiminum og alls ekki lítill lengur. Á þessu móti tefldu meðal annarra Englendingarnir Luke McShane og Nigel Short. Sín á milli tefldu þeir óralanga skák. Hún varð heilir 163 leikir og þá loksins náði McShane að vinna. 

Lengsta skák sem vitað er um var tefld árið 1989 og var heilir 269 leikir. Það voru Ivan Nikolic og Goran Arsovic sem þar leiddu saman hesta sína. Sú skák endaði reyndar með jafntefli.

Lengsta skák sem lokið hefur með sigri var tefld fyrir tveimur árum og það var Alexandra Kosteniuk núverandi heimsmeistari kvenna sem sigraði Laurent Fressinet í 237 leikjum. Sú skák hefði raunar átt að enda í jafntefli því í síðustu 116 leikjunum var hvorki leikið peði né maður drepinn svo 50 leikja reglan svokallaða hefði átt að valda því að hægt væri að krefjast jafnteflis.

Talibanar eru ekki hátt skrifaðir um þessar mundir. Eru þó ýmist studdir af Rússum eða Bandaríkjamönnum. Þegar þeir eru ekki að sprengja ómetanlegar styttur í loft upp er sagt að þeir séu annað hvort að berja konurnar sínar eða rækta eiturlyf til að selja saklausum börnum á Vesturlöndum. 

Sem titrandi talibani.
tauta ég þakkargjörð.
Rússneskur kall eða kani
kaupir mín lambaspörð.

Einu sinni var ég alveg „húkkt" á Formúlu eitt og aðalátrúnaðargoð mitt þar var að sjálfsögðu Michael Schumacher. Ég byrjaði að horfa á Formúluna þegar hann keyrði í fyrsta sinn fyrir Ferrari, þá tvöfaldur heimsmeistari. Auðvitað átti hann svolítið erfitt uppdráttar í fyrstu, en fljótlega fór hann að láta finna fyrir sér. Nú er sagt að hann ætli að byrja aftur. Það líst mér illa á. Samt getur allt skeð.


Bloggfærslur 21. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband